13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að það væri hlálegt, að sama stj. skyldi bera fram í einu þessi tvö frv., frv. um Íslandsbanka og þetta. En dálítið einkennileg örlög eru það líka, að tilefni skuli vera til að ræða um enska lánið í sambandi við Íslandsbanka. Þó að með útvegun þess láns sé talið, að bankanum hafi verið veitt aðstoð, verð ég að líta svo á þann bjarnargreiða, að óvíst sé, hvort honum hafi verið gerður annar meiri en sú hjálp. Ég veit ekki, hvort sú stj., sem lánið tók, hefir gert það bezta, sem hún hefir getað. En hitt verður ekki um deilt, að þetta var eitthvert allra óhagstæðasta lán. Það þarf ekki mikla útreikninga til að sjá það um lán, þar sem vextir eru 7%, afföll 16% og tolltekjur landsins að nokkru leyti veðsettar. (Forsrh.: Öllu leyti. — MG: Engu leyti). Ýmsir hv. þm., sem talað hafa hér á undan, hafa óttazt illar afleiðingar á erlendum peningamarkaði, ef stj. útmálaði hér í d., hvaða neyðarlán þetta var. En sannleikurinn er, að hvervetna þar, sem farið er fram á lán, er skellt fram tollveðsetningunni og kröfur gerðar um samskonar tollatryggingar. Erlendir menn, sem athuga þessa samninga, líta ekki á þá sömu augum og hv. 1. þm. Skagf.

Gengissveiflur koma ekki málinu við. Lánið var tekið án tillits til, hvernig þær kynnu að haga sér. Hvað sem hv. l. þm. Skagf. segir, þá ætlaði hann ekki að draga ríkissjóð inn í gengis-„spekulation“, því að hann gat ekki sagt um, hvort gróði yrði eða tap. Ef illa hefði farið, hefði hann ekki talið sér það til skuldar, og því á hann heldur engar þakkir skilið fyrir það, að gengisbreytingar verða hagstæðar gagnvart lántökunni. (MG: Hefi ég beðið um þakkir?). Já, óbeint, og sömuleiðis hv. 2. þm. G.-K. Ef eitthvað á að reikna með þessu, verður að draga fram, hvað gengishækkunin hefir kostað landið, taka með ýmsa útgjaldaliði, sem hæstv. fjmrh. minnti á í því sambandi. En þá er hv. 2. þm. G.-K. kominn á dálítið örðuga leið, ef hann vill færa gengishækkunina tekjumegin fyrir landið.