17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3565)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Mýr. spurði, hvort ég héldi, að dagsv. væri metið eitthvað út í bláinn, og hann sagði, að dagsverk miðaðist við meðalmannsverk á dag. Þetta veit ég vel, en ég veit líka, að mismunur á meðalmanns dagsv. getur verið mjög mikill, t. d. við túnasléttun, eftir því hvernig jörðin er, sem unnin er. Af þessu hlýtur að leiða, að allsherjarmat á dagsverkinu um allt land er ágizkun að talsverðu leyti, hvað sem hv. þm. Mýr. segir. Ég held, að þegar dagsverkið var stækkað í fyrra, hafi verið miðað við góða aðstöðu með nýtízkuvélum, en þá aðstöðu hefir ekki 1/10 hluti bænda. Þess vegna tel ég þetta ekki rétt meðaltal.

Það getur vel verið, að efni og annað, sem notað er til ræktunar, hafi lækkað nokkuð síðan 1923; ég rengi það ekki. En vinnulaun hafa ekki lækkað, heldur hækkað. Og það var einmitt sanngjarnt vegna hækkunar vinnulaunanna, að styrkurinn hefði verið látinn haldast óbreyttur. Ef það var sanngjarnt að færa niður styrkinn vegna lækkunar á efni, þá átti líka að líta á, að vinnan hefir hækkað til muna.

Það hefir enginn haldið því fram, að það ætti að hafa dagsverkið sem minnst, en ég vil ekki leggja meira í dagsverkið en svo, að með venjulegum verkfærum sé hægt að fullnægja því.

Annars virtist mér hv. þm. Mýr. vera harðari í orðum en húsbóndi hans, hæstv. atvmrh. Hæstv. atvmrh. vildi játa d. skera úr, hvernig greiða skuli styrkinn eftirleiðis. (BÁ: Ég sagðist taka því með þökkum, ef Alþ. samþ. till.). Ef hann vill taka till. með þökkum, átti hann a. m. k. ekki að tala fyrst á móti henni. En það lét hann sér sæma. Annars finnst mér það ekkert sérstaklega lofsvert af honum, þó hann lýsi því yfir, að hann muni framkvæma vilja Alþingis í þessu efni; mér virðist hann blátt áfram skyldugur til þess.

Mér þótti óþarft af hæstv. atvmrh. að vera að lesa upp bréf frá Búnaðarfélagi Íslands, því að mér virðist nef náið augum, þar sem hann er form. félagsins og vitanlegt, að hv. þm. Mýr. segir ekki annað en já og amen við öllu því, sem hæstv. atvmrh. vill vera láta. Ég er því ekki í neinum vafa um, að ef hæstv. ráðh. hefði verið mótfallinn lækkun, þá hefði hv. þm. Mýr. einnig verið það, og þá hefði lækkunin aldrei verið samþ. Ráðh. verður því að bera ábyrgðina á þessu tiltæki sínu.

Annars finnst mér ekki úr vegi að benda á, að Alþingi er ekki síður samkunda bændanna heldur en Búnaðarþingið. Það eru fleiri bændur, sem taka þátt í kosningum til Alþingis, heldur en í kosningu fulltrúanna á Búnaðarþing.