22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3596)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Gunnar Sigurðsson:

* Það mun þykja koma úr hörðustu átt, að ég, sem er Sunnlendingur, skuli ekki vilja flytja þingið á Þingvöll; en ég er reiðubúinn til að greiða atkv. á móti því, vegna þess að það er mesta fjarstæða og allt á móti því, en fátt með.

Það er mjög stórt atriði að hafa sumarþing í staðinn fyrir vetrarþing, og ég trúi því ekki, að bændur gætu þá setið á þingi, nema með því, að þingfararkaup þeirra yrði hækkað mjög.

Það hefir verið minnzt á kostnaðinn. Þinghús þarf að byggja, prentsmiðju, byggingu fyrir bókasafn, því að ekki nægði Alþingisbókasafnið eitt, og fleira gæti tínzt til.

Eitt er það, sem ég hefi ekkert heyrt um, hvernig hugsað er fyrir bústað og fæðispeningum þm. Ég er dálítið kunnugur því, hvað kostar að búa á Þingvöllum um sumartímann, og ef þm. ættu að búa þar, mun fara nærri því, að þingfararkaupið hrökkvi fyrir því og ekki meira. Og að því er vinnufrið snertir, þá mun betur setið hér en þar, því að Þingvellir eru orðnir að skemmtistað Reykvíkinga, og er þangað eilífur ferðamannastraumur.

Enn er eitt í þessu máli, sem ég vil minna á. Það kann að vera „stemning“ með því í ár, af því að það er árið 1930, og einmitt þess vegna álít ég, að þm. beri skylda til að hafa vit fyrir almenningi og greiða atkv. á móti því.