22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3603)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Magnús Torfason:

Ég stend upp nú í þeim tilgangi að leiðrétta fátt eitt af því, sem fram hefir komið í þessum umr. Það hefir verið véfengt, að það hefði nokkurt sannanagildi í þessu máli, hver breyting varð á sýslufundum Árnesinga, þegar fundarstaðurinn var fluttur og fundarmenn fóru að búa saman um fundartímann, og sagt, að fundartíminn færi eftir undirbúningi fundanna, stjórn þeirra og ýmsum atvikum. En ég byggi mitt álit á 17 ára reynslu Árnesinga; á þeim tíma hafa verið 15 sýslumenn í Árnessýslu, svo undirbúningur og stjórn fundanna hefir eflaust verið svona upp og ofan. Fyrstur af þessum lá var Sigurður Ólafsson, og svo komu 13 aðrir hver á eftir öðrum, áður en ég tók við. (PO: Hverjir voru þessir 13?). Ég get nú ekki verið að telja þá á fingrum mér, en hv. þm. getur eflaust séð í stjórnartíðindunum, hverjir það voru. (JAJ: Héldu þeir allir sýslufund?). Það hefi ég ekki sagt. (JAJ: Þá koma þeir ekkert málinu við).

Þá var verið að minnast á Skeiðaréttir. Ég held, að það hefði nú verið betra fyrir andmælendur þessa máls að minnast ekki á þær. Hverjir voru það, sem eyðilögðu þar þjóðlega og góða skemmtun, aðrir en Reykjavíkurskríllinn? (MG: Kemst ekki skríllinn austur til Þingvalla?). Það er auðvitað ekki hægt að banna neinum að fara austur á Þingvelli, fremur en í Skeiðaréttir, en ég lít svo á, að á Þingvöllum eigi að hafa vörð, til að gæta góðra síða, og það eftirlit yrði að auka, ef þingið væri flutt þangað, og er ég þá ekki hræddur um neitt sérstakt gjálífi þar.

Þegar ég minntist á Reykjavíkurloftið, gerði ég hvorki að lofa né lasta það út af fyrir sig. Það voru áhrif Reykjavíkur á þingið, sem ég átti við, að væru ekki æskileg, en þau eru áreiðanlega mikil. Þegar deilt hefir verið um mál, sem snerta Reykjavík, hefir komið í ljós, að réttar röksemdir hafa verið ofurliði bornar. Þess vegna er ég alveg á móti því að fjölga þingmönnum Reykvíkinga meðan þingið er háð hér. Ég álít, að Reykvíkingar hafi, eins og nú er, svo mikið bolmagn til að koma fram sínum málum á Alþingi, í hlutfalli við aðra landshluta, að þessa 4 fulltrúa hennar megi kalla fjóreflda. Öðru máli væri að gegna, ef þingið væri flutt til Þingvalla, þá gæti komið til mála að fjölga þingmönnum Reykjavíkur.

Það hefir verið nú sem fyrr minnzt á skoðanir Jóns Sigurðssonar í sambandi við þetta mál. En áhrif Reykvíkinga voru auðvitað sáralítil á hans tímum, svo lítil, að þeir, sem lesa þingtíðindin, geta séð, að sanngjörn og góð mál, sem borin voru fram af þeirra hálfu, náðu stundum ekki fram að ganga. Vald Reykvíkinga er alltaf að aukast, og það er ekki einungis vegna þess, að fulltrúar þeirra hafa fjölgað; ég kom fyrst á þing árið 1901, og ég ber ekki saman áhrif þeirra þá og nú.

Það er ekki rétt, að ég hafi sagt, að það mundi kosta 2–3 millj. að flytja Alþingi til Þingvalla. Ég sagði, að þó það kostaði svo mikið, þá mundi ég ekki skoða huga minn um að vera því fylgjandi. Að ég áliti, að kjósendur eigi að hafa skoðanir fyrir þingmennina, er alveg sagt út í hött. Hitt vita menn, að þingmenn verða að gera grein fyrir skoðunum sínum á þingmálafundum áður en kosið er.

Það er ekki heldur rétt, að það sé regla annara þjóða að hafa löggjafarþing sín í stærstu borgunum. A. m. k. varð það að ráði hjá þeirri þjóð, sem nú er auðugasta og voldugasta þjóð í heimi, að hafa smáborgina Washington fyrir þingstað. Hollendingar völdu einnig smábæ fyrir þingstað.

Ég hefði tilhneigingu til að drepa á fleiri hliðar þessa máls, en ég verð að láta þetta nægja nú.