14.02.1930
Neðri deild: 24. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (429)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Pétur Ottesen:

* Það mun vera í 4. sinni nú í röð, sem frv. þetta kemur fyrir Alþingi, en aldrei náð afgreiðslu. Ætla ég, að það sé greinilegt merki þess, að eitthvað þyki við það að athuga. Enda er líka svo. Heimildir þær, sem það veitir, eru svo víðtækar, að mönnum þykir varhugavert að veita þær.

Það hefir komið fram áður, og kom fram greinilega nú hjá hv. flm., að þetta er pólitískt mál. Hv. flm. sagði, að það væri í samræmi við stefnur og strauma nútímans. En það er einmitt stefna jafnaðarmanna að vilja koma öllu, bæði eignum og atvinnurekstri, undir ríki og bæjarfélög. Er því eðlilegt, að þeir komi fram með slíka löggjöf sem þessa. Löggjöfin hefir þegar viðurkennt það, að rétt sé að taka lönd og lóðir einstakra manna fyrir hæfilegt verð, þegar almenningsheill krefur. Þarf þar engu við að bæta. Með frv. þessu er því verið að teygja sig lengra inn á svið jafnaðarstefnunnar en nokkur þörf er á. Í lögunum um hafnargerðir er t. d. ákveðið, að einstaklingur verði að láta hafnargerðinni í té það land, sem nauðsynlegt er. Sama er í lögum um skipulag kauptúna og sjávarþorpa um það land, er þarf vegna götugerða eða nýs skipulags. Eins er það og með verzlunarlóðir, til tryggingar því, að frjáls samkeppni geti notið sín. Stefna frv. er líka greinilega mörkuð í grg. við frv. 1927. Þar er talað um, að hrepps- eða bæjarfélög geti, þar sem hentugt þykir, slegið eign sinni á vörugeymslu og fiskverkunarhús og annað, sem bátaútgerð sé nauðsynlegt. Þetta sýnir stefnuna. Þessar stöðvar verða vitanlega samar og áður. Hafa aðeins eigendaskipti.

Ég get því ekki séð neina nauðsyn slíkra laga og hér er stofnað til. Því þó svo gæti komið fyrir, að eitthvert einstakt tilfelli félli ekki undir þau lög, sem nú eru til, þá mundi þingið veita eignarnámsheimild, ef almenningsheill krefði þess. Ég get líka nefnt dæmi, þar sem þessi lög myndu koma í bága við önnur lög. Svo er t. d. um forkaupsréttarlögin frá 1926. Þegar jarðir eru seldar, þá eru það niðjar, sem hafa forkaupsrétt, þá ábúandi og síðast hreppsfélagið. En í þessu frv. er það hrepps-eða bæjarfélagið, sem á að hafa fyrsta réttinn. Hvernig á nú að samræma þetta? Eftir hvorum lögunum á að fara? Ég sé ekki, að þessi tvennskonar ákvæði geti bæði staðið í lögum samtímis. — Ég vildi benda á þetta áður en málið fer til n. Þungamiðja frv. er auðsjáanlega það, að greiða götu vissri stjórnmálastarfsemi í landinu. Og með tilliti til þeirrar stefnu verður að afgreiða þetta mál hér í þinginu.

Í frv., ef að lögum verður, eru að vísu ýms ákvæði, sem þarf að breyta, en um það er nógur tími að tala, þegar sést, hvort það muni fá afgreiðslu héðan frá þessari hv. deild. Mun ég því ekki mæla fleira að sinni.