14.02.1930
Neðri deild: 24. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (432)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Hannes Jónsson:

* Ég get vel tekið undir það með hv. þm. Borgf., að með þessu frv. verður árekstur á lögin um forkaupsrétt á jörðum frá 1926. Og ég verð að segja, að ég treysti nú ekki lögfræðingum svo vel, þótt þeir hafi fjallað um þetta frv., að ég geti ekki búizt við, að þeim hafi missýnzt, því að það er svo um lögfræðinga, að þeim missýnist oft og tíðum. Og fyrir það hefir líka stundum orðið árekstur í lagasetningu okkar.

Það er tekið hér fram í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta, að: „kauptún, sem er sérstakt hreppsfélag, getur einnig gert samþykkt um forkaupsrétt kauptúns á hafnarmannvirkjum, lóðum þeim, er að sjó liggja, og á lóðum og löndum innan hreppsins, svo og öðrum fasteignum, er hreppstjórn telur nauðsyn að tryggja hreppsfélagi forkaupsrétt á“.

Nú er það svo, að þegar kauptún eru að fá takmörk um sín umdæmi, þá er venjulega tekið ríflega til, svo að næstu jarðir verða að einhverju leyti innan þeirra vébanda. Ábúendur þessara jarða biðu skaða við það að missa hluta af þeim. Og ef jarðeigandinn á svo ekki að hafa rétt til þess að halda jörðinni óskertri, að því leyti, sem þörf er til landbúnaðar, og getur því ekki látið þann hluta ganga til sinna afkomenda, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. forkaupsréttarlaganna, þá er algerlega brotið í bága við þá hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir þeim lögum.

Fyrir þetta atriði er ég mjög óánægður með þetta frv., þó að ég geti hinsvegar viðurkennt, að það geti verið svo ástatt, um einstök mannvirki innan kauptúns, að heppilegt sé að leyfa því að fá eignarhald á þeim. En hitt tel ég svo stórfelldan galla á frv., að ég geri ekki ráð fyrir, að ég geti léð því mitt atkv.