04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (461)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Ég tek undir það með hv. þm. Barð., að ég hafði nærri gleymt þessu máli, enda skrifaði meiri hl. allshn. á sínum tíma allítarlegt nál., einmitt í því skyni, að ekki þyrfti að eyða miklu af dýrmætum tíma þingsins til umr. um það, er mörg merk mál bíða afgreiðslu. — Flestar hinar sömu ástæður mæla með þessu frv. nú eins og í fyrra, aðeins hefir við bæzt eitt stórt atriði, að búið er að ná samkomulagi við prestinn á Hólmum. Þótt það samkomulag vantaði í fyrra, þótti mér sjálfsagt, að málið fengi fram að ganga þá, og er það því enn sjálfsagðara nú. — Rök hv. þm. Barð. voru í sjálfu sér veigalítil. Honum var það sýnilega tilfinningamál, að ekki mætti leggja niður gamalt og fornfrægt höfuðból. En rás tímans er nú þessi, að þegar slík jörð sem þessi liggur nærri kauptúni, hlýtur hún að verða lögð undir ræktun handa íbúum kauptúnsins. Hv. þm. var að tala um hershöfðingja, er brytu undir sig lönd og færu um með eldi og eyðingu. En hér er nákvæmlega þveröfugu máli að gegna. Kauptúnið er að brjóta undir sig landið til þess, að það verði betra og blómlegra en áður. — Hv. þm. var að tala um, að nú væri farið að flytja töðuna af túninu burtu frá Hólmum. Ég veit ekkert um þetta, en sé það rétt, má auðveldlega bæta úr því, með því að bera útlendan áburð á túnið. — Þá talaði hv. þm. loks um varpið á Hólmum, að það mundi hafa spillzt vegna nálægðarinnar við Eskifjörð, og lét þung orð falla til Eskfirðinga í því sambandi. Það er nú ekki ósennilegt,. að varpið hafi eitthvað spillzt, en ég hygg, að það sé mest vegna þeirra samgangna, sem nútíminn hefir heimtað um þessar slóðir. Og þar tjáir ekki að spyrna við broddunum. Eða vill hv. þm. leggja niður veginn austur vegna þess, að kríuvarpið, sem áður var í Mosfellssveit, hefir spillzt vegna umferðarinnar austur? — Frá hvaða sjónarmiði, sem á þetta mál er litið, er sjálfsagt, að svona stórt kauptún, sem er í algerðu landsvelti, fái það land, sem ríkið getur látið því í té til ræktunar.