03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (505)

197. mál, sóknargjöld

Magnús Jónsson:

* Ég er hissa á því, að hæstv. stj. skuli ekki láta til sín heyra í sambandi við þetta frv. Mér hefði þó fundizt, sem hæstv. fjmrh. a. m. k. hefði átt að standa á verði gagnvart frv. sem þessu.

Það var alveg rétt hjá hv. fyrsta flm. þessa frv., að þjóðkirkjunni er það ekkert keppikefli út af fyrir sig að halda í þetta ákvæði sóknargjaldalaganna, því að hún fær sitt eftir sem áður. Og henni má á sama standa, hvaðan hún fær fé til starfsemi sinnar. Þeim mun minna sem kirkjunni leggst í sóknargjöldum, þeim mun meira verður ríkissjóður að leggja henni til. Kirkjunni sjálfri gerir þetta því hvorki til né frá.

Tilgangurinn með því að leggja þessi gjöld á utankirkjumenn var sá, að koma í veg fyrir, að menn segðu sig úr þjóðkirkjunni til þess eins að velta af sér sóknargjöldunum, en gætu það því aðeins, að þeir væru í einhverjum viðurkenndum trúarbragðafélögum. Og þar sem þetta gjald rennur til háskólans, stofnunar, sem er með öllu hlutlaus í trúarefnum sem öðrum og allir landsmenn ættu að geta verið hlynntir, hélt ég, að utankirkjumenn mættu vel við una.

Væri þetta ákvæði hinsvegar ekki í sóknargjaldalögunum, væri öllum undantekningarlaust lögð sú skylda á herðar að greiða þetta gjald til þjóðkirkjunnar, hversu þvert um geð sem þeim væri það. Að þeim mönnum, sem svo eru skapi farnir, að þeir mega ekki aðhyllast nein trúarbrögð, er ekki sleppt við þetta gjald, stafar af því, eins og ég áður sagði, að þá er hætt við því, að fleiri eða færri segi sig úr þjóðkirkjunni af eintómum smásálarskap, til þess að losna við að greiða þetta gjald, en notuðu þó kirkjuna og nytu eftir sem áður. Þó að háskólinn hagnist ekki mikið af þeim gjöldum, sem hann þannig fær, má telja nokkurnveginn víst, að stórt skarð yrði höggið í sóknartekjurnar, ef þetta ákvæði væri fellt niður, og að menn færu jafnvel þúsundum saman úr þjóðkirkjunni af þeim ástæðum. Það vekur því furðu mína, að hæstv. stj. skuli ekki standa á verði gagnvart frv. sem þessu, þar sem það getur haft í för með sér svo mikinn útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Kirkjulega sinnuðum mönnum má hinsvegar á sama standa um þetta frv., því að kirkjan fær sitt eftir sem áður.