10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (522)

197. mál, sóknargjöld

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf að svara hv. 2. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann sagði, að sóknargjöld væru ekki skattur, heldur borgun fyrir unnin störf. Þetta er ekki rétt. Sóknargjöldin eru skattur og nefskattur meira að segja. (HV: Þess vegna á nef, af því það er gjald, en ekki skattur). Þá má eins kalla alla skatta gjöld.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki rétt að láta trúlausa menn greiða til kirkna. Jæja, það er nú eftir því, hvað hverjum sýnist. Það þarf þó að skíra og jarða þessa menn, gifta marga þeirra o. s. frv., og oftast eru það prestarnir, sem það gera. (HV: Allt borgað). Nei, minnstur hlutinn er borgaður af hlutaðeigendum. Ríkið heldur uppi embættismannastétt til þess að gera þessi verk, og vegna þess að verkin eru ekki borguð til fulls, verður ríkið að leggja skatta á alla þjóðfélagsborgarana til þess að geta greitt mismuninn.

Hv. þm. þótti það alveg óbærileg tilhugsun að greiða slík gjöld til háskólans, ef eitthvað af þeim kynni að renna til guðfræðideildarinnar. En hann gætir ekki að því, sá góði maður, að þó að þetta væri afnumið, þá slyppi hann þó ekki við að greiða ýmsa skatta til ríkisins, og hvað veit hann þá nema eitthvað af því rynni til guðfræðideildarinnar? Það er t. d. ekkert ósennilegt, að af við skulum segja 100 kr. tekjuskatti rynni 5 til 10 kr. til hv. 1. þm. Reykv. (HV og HG: Það er þó skemmtilegt! Huggulegt eða hitt þó heldur!) Svona er nú þetta.

Svo er það viðvíkjandi orðalagi 2. gr. frv. Eins og gr. er nú orðuð, er ekki hægt að samþykkja hana. En hæstv. forseti hafði rétt fyrir sér í því að það væri ekki meining flm. að gera breyt. á stjskr., heldur einungis að gjaldskylda til Háskóla Íslands falli niður. Stjskr. á að haldast óbreytt, þó að þingið samþykki lög um þetta í ár eða næsta ár. Hinsvegar væri að þessu leyti ekkert til fyrirstöðu því, að samþykkja gr., ef brtt. hæstv. forseta verður fyrst samþ.