10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (523)

197. mál, sóknargjöld

Benedikt Sveinsson:

Mér virðast engin tvímæli leika á því, að breyta megi þessum ákvæðum 60. gr. stjskr., því að í niðurlagi gr. er það tekið fram, að breyta megi þessu með einföldum lögum. Þetta ákvæði stendur því utan við flestöll önnur ákvæði stjskr., sem ekki verður breytt nema með stjórnarskipunarlögum. Hér er eigi um slíkt að ræða. Hitt væri í rauninni brot á stjskr. eða anda hennar, ef menn virtu það að engu, sem hún leyfir sjálf.

Það er rétt, að þetta frv. bætir ekki til fulls þann halla, sem menn bíða sökum trúarbragða sinna, ef þeir eru ekki í þjóðkirkjunni. Menn verða að greiða ýms opinber gjöld, sem síðar kunna að einhverju leyti að renna til þjóðkirkjunnar. Á þessu verður engin breyt., enda eigi unnt að girða fyrir slíkt, meðan ríkið kostar kirkjuna að einhverju leyti. En sú réttarbót, sem í frv. felst, nemur burt það misrétti, að utanþjóðkirkjumenn greiði persónuleg gjöld til jafns við safnaðarmenn þjóðkirkjunnar, sem þar eiga athvarf til sáluhjálpar.

Hv. 1. þm. Skagf. lét í ljós vandlæting sína yfir því, að ég hefði flutt brtt. mína úr forsetastóli. Þetta er ekki rétt hjá honum, að öðru leyti en því, að ég las brtt. í sambandi við úrskurðinn, sem ég felldi. Ég kom hingað til þess að mæla fyrir henni, og vil ég hér með leggja hana fram, og vona, að hæstv. forseti leiti afbrigða að hún megi komast að, því hún er skrifleg og kemur fyrirvaralaust.