11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (541)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Ólafsson:

Ég þarf í raun og veru ekki miklu að svara, því fátt hefir fram komið, sem mælir gegn réttmæti þessa frv. — Hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. G.-K. hafa viljað sanna það, að við höfum ekki haft lagalegan rétt til að bera þetta frv. fram á þingi. En nú hefir hv. 2. þm. Árn. sýnt fram á það, að þessir tveir hv. þm. fari hér með hinar mestu lögvillur og að þeir rugluðu saman umboðsvaldinu og löggjafarvaldinu. Og það er vitanlegt, að löggjöfin setur framkvæmdarvaldinu reglur, sem það verður að fara eftir. En löggjafarvaldinu er hvergi bannað — og ekki hægt að hanna — að grípa inn í um öll mál, og ekki sízt ef um hagsmuni margra manna er að ræða, enda þótt þeir kunni að einhverju leyti að rekast á hagsmuni sárfárra manna. Í þessu tilliti er þetta svo. Hér er um skipulagsatriði að ræða, sem getur, ef þessu máli fæst ekki framgengt, orðið stórkostlegur fjármunaspillir síðar meir, eins og ég hefi áður lýst.

Hv. þm. Borgf. kallar það með endemum, að við skulum flytja hér þetta mál. Ég held, að sá hv. þm. athugi það ekki nógu vel, að við erum hér að reka erindi fjölda manna, sem trúað hafa okkur fyrir þessu máli. Og ég hygg, að hv. þm. Borgf. muni reka erindi sinna kjósenda eigi ósleitilegar en við höfum gert. En þeir, sem reka erindi sinna kjördæma vel, ættu þó líka að geta litið með sanngirni á þarfir annara og erindisrekstur umboðsmanna þeirra. En það er nú einmitt oft svo, að þeir, sem eru duglegastir fyrir sína kjósendur, eru ósanngjarnari og einsýnni á þarfir annara.

Hér er gert ráð fyrir, að komi fullar bætur fyrir. Þannig hefir það einnig verið, þegar Reykjavík hefir fengið skika af nærliggjandi sveitahéruðum. Og ég er í engum efa, að þessi hreppur fengi svo ríflegar bætur, að hann mundi máske ekki þurfa miklu að bæta við vexti af þeirri upphæð til þess að hafa nóg í sín útgjöld. En þó er ég sannfærður um, að bænum verður létt að bera þá upphæð, móti því að það dragist lengi, að bærinn fái yfirráð yfir þessum skika. Því að það er bæði illt og kostnaðarsamt að þurfa að rífa niður og breyta ýmsu síðar. Þetta vildi ég benda hv. þm. á að athuga með fullri ró og skynsemi. Hér er um mál að ræða, sem hlýtur að fá framgang fyrr eða síðar. Menn mega alls ekki láta neina hreppapólitík villa sér sýn, eins og því miður hendir suma hv. þm.

Hv. 2. þm. G.-K., sem því miður er ekki viðstaddur, hélt því fram, að hreppsbúar veittu Reykvíkingum svo mikla atvinnu. En ég vil þá minna á, að það eru Reykvíkingar, sem á einum stað færa atvinnu inn í hreppinn fyrir 160 þús. kr. Annað félag færir þangað sennilega sömu upphæð. Þarna á nesinu hafa menn enga atvinnu af sínum eigin rammleik, nema af litlum jarðargróða af einstöku skæklum. Það er svo þýðingarlaust að koma með þá fjarstæðu, að Seltirningar veiti Reykvíkingum atvinnu. Sú atvinna, sem þeim stafar frá Reykjavík að hálfu leyti, er á því svæði, sem farið er fram á að lagt verði undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Sú þörf og þau fleiri rök, sem koma frá hálfu Reykvíkinga, er hvorttveggja það þungt á metunum, að það vegur langsamlega móti því, sem komið hefir á móti. Hitt má máske kalla eðlilegt, að þeir, sem á þessum bletti búa, kæri sig ekki um að komast undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. En reyndar skil ég það ekki; því að það er alveg gefið, að þeir hafa mikil þægindi af því. Það verður miklu betri samvinna um þau mál, sem þeir eiga sameiginleg við Reykjavík. Hv. 2. þm. G.-K. minntist á vatnið síðast, að þeir ættu heimtingu á því. En það er þeim takmörkum bundið, að bærinn sé aflögufær. Hvað er um Skólavörðuholtið og aðra hærri staði? Fyrst eiga þeir rétt á nægu vatni. (Rödd af þingbekkjum: Vex vatnið nokkuð við það, að sameining fari fram?). Rétt er það, að vatnið vex ekki, en samúðin milli staðanna og sameiginlegur áhugi fyrir að sjá sameiginlegu héraði fyrir nauðsynjum sínum í þessu sem öðru. Það mundi sennilega strax verða unnið að því að auka vatnsveituna, svo að Reykjavík gæti fullnægt öllum sínum borgurum, eins og bærinn hefir orðið að gera á hverjum tíma hingað til.

Það er alveg þýðingarlaust að vera að þrátta um þetta mál. Ég vonast eftir þeirri sanngirni, að það verði látið fara í nefnd, til þess að hinar ýmsu hliðar þess verði athugaðar gaumgæfilega. Það stendur að vísu til, að hefja samninga um þetta mál við hreppinn, og má búast við, að það verði nokkuð þungur róðurinn. En þá er það löggjafans að taka í taumana og líta á það, sem er praktískt og nauðsynlegt, bæði í bráð og lengd.