03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (565)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi í raun og veru ekki miklu að svara hv. frsm. meiri hl. Ég skal fyrir kurteisis sakir viðurkenna það sama um hann, sem hann um mig, að ræða hans var stillt og hógvær, eins og vandi er til um þann hv. þm. En þau rök, sem ég færði gegn þessari ónauðsynlegu löggjöf, sem hér er á ferðinni, við fyrri hluta þessarar umr., standa alveg óhögguð eftir ræðu hv. frsm. meiri hl. Það er dálítið eftirtektarvert, þegar hv. frsm. vill afsanna það, sem ég var að segja um gildi lagaheimildar fyrir stj. til að hafa það eftirlit, sem þörf er á í þessu efni. Hv. frsm. vildi þá gleyma reglug. frá 1918. Hann minntist aðeins á lögin frá 1917. Eins og lýst hefir verið af mér og hv. 1. þm. Skagf., eru ekki eins ítarleg fyrirmæli í lögunum frá 1917 eins og í reglug. frá 1918, en þar er þó nógu ítarlega farið út í málið, svo að hver stj., sem vill hafa eftirlit, hefir nóga stoð í þeirri reglugerð og hefir haft hana mörg ár. Þess vegna gruna ég hæstv. stj. um græsku í flutningi þessa máls. Hér er í 3. sinn farið af stað með frv. í þessu efni og talað um að afstýra mikilli hættu. En ef að er gáð, er þetta mál svo vaxið, að stj. hefir í hendi sér að gera það, sem hún vill, án þess að fá nýja stoð í lögum. Þegar litið er á málflutning allan, er full ástæða til að halda því fram, að hér sé bara pappírsgagn á ferðinni, sem hæstv. stj. er að hampa framan í þjóðina og reynir að nota það til þess að benda á misfellur hjá einni stétt manna, sem sé útgerðarmönnum. Að ég ekki í fyrstu vakti enn á ný athygli á þessari hlið málsins, var af því, að hún er svo þrautrædd milli mín annarsvegar og hæstv. dómsmrh. hinsvegar á sínum tíma, og ég vildi ekki þreyta hv. d. með að fara að endurtaka þau ummæli.

Hv. frsm. meiri hl. minntist á það, að hvergi í lögunum frá 1917 né í reglug. frá 1918 væri eins gagnleg ákvæði til að hindra misnotkun loftskeyta og hér er um að ræða. Ég benti hv. frsm. á það, sem Hannes Hafstein sagði, þegar hann benti á þá hættu, að setja lög, sem verkuðu siðspillandi. Ég vil enn vitna til orða hins látna merkismanns á þinginu 1912, af því að hv. frsm. virðist leggja þungamiðju röksemda sinna í hið framknúða drengskaparheit.

Ég hygg, að svo fari, hvort sem um þessa lagasetningu er að ræða eða aðra, að þegar svo langt er gengið, að fyrir þann, sem vill svíkja er opin leið að gera það með drengskaparvottorði, séu þau lög til lítils þrifnaðar. Ég get vel unnað hæstv. stj. og hv. frsm. að koma þessari lagasetningu af stað. Hv. frsm. hefir fallizt á lagfæringar í ýmsum atriðum, en sjálf meginregla laganna er eins fáránleg og áður.

Hv. frsm. áleit enn eitt atriði til bóta, nefnilega að banna notkun dulmáls, nema því aðeins, að stj. hefði lykilinn að því. En nú er í langflestum tilfellum hægt að ráða dulmálið.

Ég vil enn einu sinni segja hv. frsm., af því að ég veit, að hann er unnandi góðri landhelgisvörn, og að hann er of greindur til að halda, að þetta frv. sé öflugt spor í rétta átt, að það er sannfæring okkar minnihlutamanna, að þungamiðja landhelgisgæzlunnar og það eina, sem við getum byggt á í þessu efni, sé að láta varðskipin gæta landhelginnar. Það er eina örugga leiðin. Og ég er hræddur um, að þeir, sem leggja trúnað á þann grun, sem hv. frsm. hefir margstagazt á, muni fá að sjá, að enn meiri grunur getur lagzt á menn í framtíðinni fyrir að misnota þessa nýju löggjöf. Ég býst við, að hv. frsm. muni fá að sjá, að síðari villan verður verri hinni fyrri.