17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (574)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Flm. (Halldór Stefánsson):

Það er líklega rétt, að ég minnist á þau atriði, sem drepið hefir verið á, vegna þess að ég hefi verið allmikið riðinn við samningu þessa frv. og hæstv. stj. er ekki hér stödd. Annars vil ég leyfa mér yfirleitt að vísa til grg. um þær breyt. sem í frv. felast og eru skýrðar þar allítarlega.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir nú minnzt á ýms einstök atriði frv. og þykir sumar af brtt. vera til bóta, en aðrar ófullnægjandi eða athugaverðar. En aths. hans snertu þó meira reglugerðaratriði ýms en frv. sjálft.

Hv. þm. þótti útfærsla ábyrgðarskyldunnar, sem gert er ráð fyrir í frv., vera viðsjárverð og ekki til bóta. Ef ábyrgðarskyldan eða það fyrirkomulag, sem verið hefir í Brunabótafélagi Íslands og brunabótasjóðum sveitanna, hefir verið viðsjárvert allt frá upphafi að efnt var til þessara innlendu trygginga, þá er náttúrlega viðsjárvert að færa út tryggingarsviðið. En það er alveg gagnstætt mínu áliti og margra annara. Ég held, að flestir telji, að þessi lög, sem hér er verið að leggja til að breyta, hafi upphaflega verið spor í rétta átt, og að það sé viðurkennt af þinginu, — því aðeins eru þau sett — og þá sé þetta, sem hér er farið fram á, að færa tryggingarskylduna út, ekki spor í öfuga átt, heldur er hugsað að stíga sporið lengra og fyllra.

Þá er önnur höfuðbreyting, sem gerð er með þessu frv., að afnema sjálfsábyrgðina. Við þetta skilst mér hv. þm. ekkert hafa að athuga frá sínu sjónarmiði, og þarf ég því ekki að tala um það.

Enn er það eitt höfuðatriði, að afnema sérábyrgð eða ábyrgðarhlutdeild bæjar- og sveitarfélaga. Ástæðurnar fyrir þessari breyt. eru allítarlega raktar í grg., og til þess að hefja ekki langar umr. um það að óþörfu, vil ég biðja menn að athuga það, sem þar er sagt. En einmitt af því, að gert er ráð fyrir að afnema sérábyrgð sveitar- og bæjarfélaga og breytingarnar eru þeim eingöngu til hagsmuna, þá er minni ástæða til að bera sig saman við þau um breytingar á lögunum, eins og hv. þm. vildi gera.

Þá voru það einstök framkvæmdaratriði eða reglugerðarákvæði í Brunabótafélaginu, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, og minnist ég þá þess, að hann fann að því, hvernig iðgjöldin væru ákveðin í félaginu, alveg af einræði félagsins. Það er að vísu rétt, en það er ekki byggt á neinu ákvæði, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur er það byggt á og gert eftir reglugerð félagsins. Með reglugerðinni eru settar reglur fyrir því, hvernig á að ákveða iðgjöldin, og ákvörðun iðgjaldanna fer auðvitað einvörðungu eftir því.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það getur komið til með að vera önnur smitunarhætta hjá Brunabótafélagi Íslands en erlendum félögum. En það stafar af mismunandi ákvæðum í reglugerðum og iðgjaldatöxtum félaganna, sem sé þannig, að eftir reglugerð Brunabótafélags Íslands er ákveðið lengra bil milli húsa, til að ekki valdi smitun, en hjá erl. félögum. Til skamms tíma var sama bil ákveðið í hinum erlendu félögum, en hefir nýlega verið stytt.

Ég hefi einmitt hugsað mér, ef breytt verður lögum félagsins,að þá verði einnig breytt reglugerðinni og m. a. þetta ákvæði tekið sérstaklega til athugunar, því að ég álít, að innlendu félögin eigi að engu leyti og þurfi að engu leyti að bjóða lakari kjör eða kosti en þau erlendu.

Þar sem hv. þm. vildi draga í efa það, sem sagt er í grg. um muninn á iðgjöldum hinna erlendu vátryggingarfélaga, sem starfa hér og Brunabótafélags Íslands, þá held ég, að ekkert sé ofmælt þar. Umsögnin um það er sem sagt algerlega miðuð við taxta erl. félaganna og Brunabótafél. Íslands. En þó vil ég geta þess, að ekki er algert samræmi í flokkun húsanna. Þannig hafa hin erl. félög steinhús í tveimur flokkum, en hið innlenda í einum. En þegar reglugerðinni verður breytt, þyrfti einnig að gera þá breyt. hér.

Að iðgjöldin séu lægri fyrir þau hús, sem eru eingöngu úr steini bæði utan og innan heldur en fyrir hús, sem byggð eru að innan úr timbri, virðist mjög réttmætt.

En það er ekki við því að búast, að svo sé ákveðið í reglugerð Brunabótafélagsins, því hún mun vera allt að því jafngömul þeirri byggingaraðferð, sem tilefni gefur til þessarar breyt.

Ég man nú ekki eftir fleiri atriðum í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara. Þó hv. þm. þykist e. t. v. þurfa að gera einhverjar aths. við það, er ég hefi nú sagt, geri ég ekki ráð fyrir að þurfa að ræða út um þetta nú, þar sem hv. þm. virðist vera því fylgjandi, að frv. fái að fara til 2. umr. og n.

Að lokum vil ég geta þess, að ég hefi hér í höndum álit tryggingarfróðs manns um aðalbreytingarnar, sem felast í þessu frv. Fellur það mjög vel saman við þær ástæður, sem færðar eru fram í grg. frv. fyrir þeim breyt., sem frv. gerir ráð fyrir á brunatryggingamálum okkar.