17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (576)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil benda á, að það er alstaðar venja, þar sem vátryggðir bera hluta af hættunni, að þá eru iðgjöldin a. m. k. þeim mun lægri sem nemur áhættu þeirra. Þannig er það erlendis og þannig hefir það einnig verið hér. Þannig hefir það verið hjá Samábyrgð Íslands. Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga, sem mun vera eitthvert elzta tryggingarfélag á landinu, hefir látið hina vátryggðu bera 20% af áhættunni. Samábyrgðin endurtryggir fyrir félagið helming áhættu þess, en vegna þess að vátryggðir hafa sjálfir beina áhættu að 1/5, þá eru iðgjöld hjá Samábyrgðinni aðeins 5%, en á sama tíma tekur hún í beina áhættu fullra vátrygginga 7–8% af samskonar skipum.

Mér hefir komið til hugar, hvort ekki væri heppilegt, að hvert sveitar- og bæjarfélag hefði brunabótafélag fyrir sig, sem endurtryggðu svo ½ af tryggingarupphæðunum hjá aðalfélaginu, Brunabótafélagi Íslands. Á þann hátt yrði áhætta félagsins minni, ef allir hefðu nokkurra eiginhagsmuna að gæta. Reynslan hefir sýnt það hjá Samábyrgðinni, að það hefir verið betra fyrir afkomu hennar að endurtryggja fyrir 5% iðgjald hjá „lókal“-félögum heldur en taka beina fulla tryggingu fyrir 7%. Það yrði því á þann hátt til hagsbóta fyrir héruðin- og bæjarfélögin, ef þau vildu taka á sig einhvern hluta af ábyrgðinni, iðgjöldin yrðu lægri. Mér finnst því vert að athuga, hvort ekki beri að fara þessa leið. Álít sjálfsagt að gefa bæjar- og sveitarfélögunum kost á að segja álit sitt um þessi mál.