15.03.1930
Neðri deild: 54. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (581)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir nú gert grein fyrir ástæðum hans fyrir þeirri afgreiðslu, sem hann leggur til, að frv. fái. Ástæðum þeim, sem hann færir til í nál. sínu, sem ekki kom fram fyrr en minni hl. hafði gefið út álit sitt, er þegar fyrirfram svarað í áliti minni hl. Minni hl. vissi, hverjar þær myndu verða, af því sem fram kom í n., því fremur, sem þær einnig komu fram við 1. umr. Minni hl. sannar það ótvírætt í nál. sínu, að sú höfuðástæða, sem borin var fram við 1. umr. með tilvísun til 25. gr. laganna, og sú ástæða, sem meiri hl. ber fram, er með öllu röng. Við 1. umr. var því haldið fram með miklum krafti, að 25. gr. í lögum Brunabótafélagsins mælti svo fyrir, að almennar breyt. á lögum Brunabótafélagsins skyldu bornar undir félagsdeildirnar, þ. e. sveitarfélögin, áður en þær næðu samþykki Alþingis. Með því að taka þessa 25. gr. upp í álit sitt hefir minni hl. sannað, að þær breyt., sem þar er talað um, ná eingöngu til breytinga á stjórn félagsins. En nú er engin till. í frv. um breyt. á stjórn félagsins, svo að það stendur þá jafnopið eftir sem áður að gæta þessa skilyrðis í 25. gr., ef þinginu sýnist ástæða til þess. Þess vegna er dagskrártill. meiri hl., sem byggir á þessum röngu forsendum, einber markleysa. Hún gæti staðizt sem ályktun út af fyrir sig um það, að nú skyldi ríkisstj. semja frv. um breyt. á stjórn félagsins og leggja það fyrir sveitarstjórnirnar, en það er engin ástæða fyrir því að binda það við önnur atriði í lögum félagsins heldur en það, sem hún tekur til. Það væri að hengja skóarann fyrir skraddarann, að ætla að fara að teygja þetta atriði út fyrir það, sem það nær ekki til. Ég vil þá spyrja út af því, hvort Alþingi sé svo fúst til að bera breytingar á lögum almennt undir borgara í landinu. Ég minnist þess, að alveg nýlega, þegar kom fram sérstök till., sem lá hér fyrir þinginu um flutning Alþingis, að það skyldi borið undir þjóðaratkvæði, þá var lagzt á móti því, og það einmitt af sumum þeim hv. þm., sem nú bera fram þessa till. hér. Það hefir ekki verið venja að bera það undir kjósendur, þó að ætti að setja ný lög eða breyta lögum, t. d. leggja á þá þyngri álögur, tolla og skatta, og snertir það þó ekki óverulega hagsmuni borgaranna. Og ekki hefir það verið venja að bera það undir kjósendur fyrirfram, hvort þeir vildu fallast á að auka útgjöld sveitarsjóða og annað því um líkt. Ef ætti að beita þessu við þetta frv., þá held ég, að ætti að koma til athugunar, hvort ekki væri ástæða til að vísa fleiri málum undir atkv. borgara. Og þar sem það er nú viðurkennt af sjálfum hv. frsm. og öðrum andmælendum frv., að sum atriði frv. a. m. k. séu til bóta, þá virðist því minni ástæða til að fara þessa leið, sem hann leggur til. Það yrði að vera eitthvað stórathugavert við frv., ef til þessa ráðs ætti að grípa.

Það eina, sem hv. frsm. meiri hl. í ræðu sinni gerði aths. um frv., var útfærsla sú, sem hugsað er, að gæti orðið á lausafjártryggingum. Lausafjártryggingar eru ekki nýtt verksvið, sem félagið hefir ekki haft áður, heldur er það þannig, að með frv. er vátryggjendum gert greiðara að tryggja hjá félaginu en áður. Fyrir lausafjártryggingu hafa verið ýmsar takmarkanir, sem hafa valdið því, að menn hafa ekki leitað til Brunabótafélagsins eða sveitafélaganna með lausafjártryggingar. Það er ekki ætlazt til þess í frv., að neinar skyldutryggingar séu á lausafé, eins og mér skildist líka á frsm., að hann skilja, heldur aðeins gert greiðara fyrir lausafjártryggjendur að leita til félagsins. Ég get náttúrlega vel skilið það frá sjónarmiði Sjálfstæðismanna, að þeim sé ekki annt um að hleypa Brunabótafélaginu, sem er ríkisstofnun, lengra inn á svið hinnar frjálsu samkeppni, sem sé inn á svið þeirra einkafélaga, sem hingað til hafa verið nær einráð um lausafjártryggingar, vegna þess hvernig lögin eru í þessu efni, enda kom það allverulega fram við 1. umr. hjá hv. þm. N.-Ísf. Ég þykist því sjá það og skilja, að þetta muni vera bakástæðan fyrir því, þó að því sé ekki mikið haldið á lofti, að hv. þm. Sjálfstæðisflokksins leggja á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga nú. Þeim mun þykja frestur á illu beztur. En þó að það takist nú að þessu sinni að tefja þetta mál, þá verður það ekki stöðvað til lengdar. Þessi töf verður því skammgóður vermir.

Þá lagði hv. frsm. allmikla áherzlu á það, að nauðsynlegt væri að bera mál eins og þetta undir álit sérfróðra manna á þessu sviði. Þessu vil ég alls ekki mótmæla. Ég ætlast alls ekki til, að hann eða aðrir álíti, að ég eða hæstv. ríkisstj. hafi neitt sérstakt vit á þeim teknisku atriðum, sem að þessu máli lúta. En hv. þm. hefir gleymzt það, að það er búið að bera þetta frv. og þær breyt., sem í því felast, undir tvo sérfróða menn. Þeir menn, sem stjórnin bar þetta undir, voru þeir Brynjólfur Stefánsson og Árni Björnsson. (PO: Hvernig er það, hefir fjhn. ekki fengið frv., sem Brynjólfur samdi fyrir stj.?). Hún hefir ekki fengið það, en hæstv. forsrh. hefir tjáð mér, að hans álit gengi í sömu átt og till. þær, sem í frv. eru. (PO: Því var það ekki lagt fram?). Það mun vera nýkomið og verður sjálfsagt ekki leynt. — Fyrir fjhn. hefir þar á móti legið álit Árna Björnssonar. (SE: Ég hefi ekki séð það). Hv. þm. hefir þá ekki kært sig um að sjá það.

Minni hl. vék að því í nál. sínu, að það væri sérstaklega knýjandi þörf á breytingum á lögunum um brunabótasjóði sveitarfélaganna, og vísaði þar um til þál., sem samþ. hefir verið á Alþingi fyrir tveimur árum. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að þar mundu breytingar á reglugerð nægja. Ég skal ekki neita því, að nokkrar breyt. mætti gera með reglugerðarbreytingum, en þær umbætur nægja ekki, enda hefði samþykkt þáltill. þá verið óþörf. Hitt er líka sýnilegt, að það er ekki hægt að endurskoða reglugerðirnar fullkomlega, hvorki fyrir sjóði sveitarfélaganna eða Brunabótafélagið, fyrr en útséð er um það, á hvaða lagalegum grundvelli þær reglur eigi að byggjast.

Ég hefi kynnzt því allvel, síðan ég kom að stjórn þessara félaga, að brýn þörf á breyt. á sjóðum sveitafélaga er mjög ríkjandi álit meðal þeirra, sem vátryggja.

Ein ástæðan fyrir því, að þetta er mjög knýjandi, er sú, að í lögum Búnaðarbankans er það áskilið, að byggingar, sem reistar eru fyrir fé úr Byggingar- og landnámssjóði, séu tryggðar fyrir fullt kostnaðarverð, en lög brunabótasjóða sveitafélaganna eru þannig, að ekki má vátryggja nema 5/6 verðmætis. Þar af leiðandi verða þeir menn, sem byggja fyrir fé Byggingar- og landnámssjóðs, að flýja sjóði sveitafélaganna. Steinhúsin, þau beztu hús, sem hægt er að hafa í tryggingu, geta ekki komizt þar að, og önnur hús, sem reist eru, verða líka að flýja úr sjóðum sveitafélaganna vegna þeirra takmarkana, sem eru á tryggingum í þeim.

Þegar litið er á dagskrártill. meiri hl., verður ekki annað sagt, — eins og fyrr var sýnt fram á — en að hann byggi þar á algerlega röngum forsendum, þar sem hann gerir ráð fyrir því, að ákvæði 25. gr. nái til þess, að bera eigi almennar breyt. á lögum félagsins undir sveitarstjórnirnar. Hún nær alls ekki til þess. 25. gr. nær eingöngu til breytinga á stjórn félagsins.

Og að því er snertir skilyrðið sem fyrir hendi á að vera, þegar þessa endurskoðun á stjórn félagsins á að gera, þá skal ég geta þess, að það hefir verið fyrir hendi allt frá fyrsta heila starfsári félagsins, m. ö. o. í full 12 ár. Iðgjöldin hafa verið allt frá upphafi meira en 75 þús. krónur. Stjórnirnar eru þá búnar að vanrækja þessa skyldu jafnlengi og félagið er búið að starfa, án þess nokkur hafi fundið að. Ef þinginu sýndist nú að áminna stjórnina um þetta, þá á að gera það með sérstakri þál., en ekki binda hana við almennar breyt. á lögum félagsins.

Ég skal að vísu ekki ræða mikið um það nú, hvernig fyrirkomulagið á stjórn félagsins ætti að vera. Það liggur ekki fyrir nú. Ég skal þó benda á, að það hafa verið gerðar breytingar á stjórn félagsins án þess að það hafi verið borið undir sveitarstjórnirnar. Sú breyting var gerð með lögunum um samstjórn tryggingarstofnana. (MG: Þær hafa líka verið á móti því). Ég skal taka það fram sem mína skoðun um fyrirkomulag á stjórninni, að ég álít, að vel mætti taka til athugunar, hvort ekki ætti að gera breytingu í þá átt, að samstjórn tryggingarstofnana skyldi þannig fyrir komið, að það væri forstjóri og meðstjórnendur eða fulltrúaráð, eins og það er kallað hér, sem væri þá sameiginlegt fyrir allar deildir tryggingarstofnananna. Það virðist vera skynsamlegt. A. m. k. er sparnaður að því, í staðinn fyrir að láta hverja deild hafa sitt tryggingarráð. En þetta liggur ekki fyrir nú; ég nefndi þetta aðeins til athugunar.

Það má kannske láta sér í léttu rúmi liggja, hvernig afgreiðsla þessa máls fer nú; atkvæðamagn ræður því. Ég hefi skilið það, að það eru einhverjir mikilsmegandi menn úr Sjálfstæðisflokknum, sem leggja áherzlu á að tefja málið að þessu sinni. Það skildist mér a. m. k. á tveimur meðnm. mínum, sem tekið hafa þessa afstöðu til málsins, að fresta því, að það væri ekki fyrst og fremst þeirra persónulega skoðun, heldur væri það af því, að áherzla væri lögð á það af einstökum samflokksmönnum þeirra.