13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Vestm.

Hv. þm. fór að gera samanburð á Þorsteini Erlingssyni og Halldóri Kiljan Laxness, dáði Þorstein og krossaði sig á bak og brjóst yfir ritsyndum Laxness. Broslegt er þetta. Hann dæmdi ritverk H. K. L. sama dómi og sálubræður hans dæmdu ritverk Þorsteins Erlingssonar fyrir nokkrum árum. Þessir menn hafa þó eitt sameiginlegt. Þeir eru báðir ádeilurithöfundar, og það er ástæðan fyrir því, að dómur sálubræðra hv. þm. er sá sami um báða, þótt áratugir séu á milli þeirra.

Það er ekkert nýtt að heyra því haldið fram um þá menn, sem deila á stofnanir, stefnur og skipulag, að þeir séu hættulegir óhörðnuðum unglingum, sem hætt sé við að þeir leiði á glapstigu. Allir þeir rithöfundar, sem nokkuð hefir kveðið að, hafa einhvern tíma verið hættulegir í augum sálubræðra hv. þm.

Einn flokksbróðir hv. þm. Vestm. ber Guðmund skáld Friðjónsson mjög fyrir brjósti og vill hækka styrk hans. Þessi rithöfundur skrifaði einu sinni bók, sem ýmsum þá þótti óhæfa að láta óharðnað fólk lesa. Sú bók hneykslaði fjölda góðra borgara. Það var bókin „Ólöf í Ási“. Nú er þessi rithöfundur orðinn svo hugþekkur sálubræðrum hv. þm., að þeim finnst sjálfsagt að styrkja hann ríflega.

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. á að fjölyrða mikið um þetta. En ég held að þeir, sem hneykslast svo mjög á ummælum H. K. Laxness í síðasta riti hans og telja stórhættulegt að styrkja slíkan mann af almannafé, ættu að kynna sér rit t. d. George Brandes, og líta í ritdómana, sem íhaldsmenn hafa skrifað um þau allt fram á síðustu ár.

Mér þótti það undarlegur smekkur hjá hv. 2. þm. G.-K., að hann skyldi enn vilja draga konu sína, sem af öllum er sögð hin ágætasta kona, inn í þessar umr., ekki smekklegri þátt en hann hefir lagt til þeirra. Ég mun ekki fylgja dæmi hans í því.

Það er ekki rétt, að ég hafi verið að gera samanburð á rithöfundunum H. K. Laxness og Guðmundi Kamban. Ég benti aðeins á, að ein af bókum Guðmundar Kambans hefði hneykslað marga, ekki síður en rit Kiljans. Hitt veit ég, að þessir tveir rithöfundar eru ólíkir að flestu leyti. Báðir hafa mikið til síns ágætis, því vil ég styrkja báða, en þeir þurfa ekki að vera líkir fyrir því.

Ég er lítið bókfróður og sneyddur allri listgáfu, því miður. Það er ef til vill þess vegna, sem mér finnst mestu skipta, að rithöfundar og aðrir slíkir hafi einhvern boðskap að flytja. Boðskapurinn, innihaldið, er í mínum augum ennþá meira virði en formið. Og þessi maður, H. R. Laxness, hefir boðskap að flytja, hvað sem annars má um hann segja. Ég veit vel, að hann setur oft þann boðskap fram á þann hátt, sem ýmsir látast hneykslast á eða telja miður fara. En það er háttur margra ágætra manna, er þeir vilja rjúfa þögnina, að taka sterkt til orða, svo að fremur sé á þá hlustað. Ætti hv. 2. þm. G.-K. að skilja það, því t. d. er hann vanur að brýna röddina og taka mikið upp í sig, þegar hann flytur ræður sínar. (ÓTh: Annar er þó þekktur að því að gaula hærra hér í hv. deild). Það gaular nú auðvitað hver með sínu nefi, eða sínum barka. (ÓTh: En ekki klaufunum). Vissulega ekki ég, en ef til vill hv. þm. Klaufaspörk hans eru a. m. k. alltíð.

Mér skildist á síðustu ræðu hv. 2. þm. G.-K., að hann væri ekki ráðinn i, hvort hann greiddi atkv. með styrknum til H. K. Laxness eða ekki. Það er auðvitað gleðilegt, ef maður má eiga von á, að hann greiði atkv. með brtt. En dálítið þætti mér það einkennilegt, eftir þau orð, er hann hefir viðhaft í sambandi við hana.

Að endingu skaut hv. þm. því að mér, að ég mundi vera að stofna einhvern nýjan flokk, sem ætti að heita „Kleppskarlar“. En þetta er misskilningur; ég mun láta hv. þm. og ýmsa, sem eru í sálufélagi við hann, eina um það. Nafnið hæfir þeim vel.