14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

Afgreiðsla þingmála

Haraldur Guðmundsson:

Út af orðum hæstv. forseta vil ég geta þess, að það er að sjálfsögðu alveg á hans valdi, hvort þau mál, sem ég talaði um áðan, komast til umr. eða ekki. Hann veit ætíð fyrirfram með nokkurri vissu, hversu mikilla umr. má vænta um hvert mál, og getur því ráðið við þetta, er hann raðar á dagskrána. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að mér finnst undarlegt hjá hæstv. forseta, að í dag hefir hann til 1. umr. 2 mál, sem vænta má mikilla umr. um, frv. um gelding húsdýra og frv. um innflutningsgjald af benzíni til viðhalds vegum. Þessi mál, sem bæði eru nýkomin fram, eru nú tekin til 1. umr., þótt gengið sé framhjá málum, sem lengi hafa skreytt dagskrána. Ég skora því enn á hæstv. forseta að hafa málin svo ofarlega, að þau geti komið til umr. Það er bara fyrirsláttur, að hann ráði ekki við það.

Út af áskorun hv. þm. Dal. til hæstv. forseta hefi ég í rauninni ekkert að segja. En það er dálítið einkennilegt, að hv. þm. skuli nú allt í einu þykja svo mikil óvirðing í þessu flokksheiti, sem flokkur hans nefndi sig sjálfur árum saman. Þetta lítur út eins og hv. þm. þyki flokkurinn eiga svo flekkaða fortíð eftir þann tíma, sem hann kallaði sig Íhaldsflokk, að fyrir þá sök sé skömm að nafninu. Ég er ekki að segja, að þetta sé svona, en orð hv. þm. Dal. gefa tilefni til að ætla, að þetta sé hans skoðun. — Af því að ég er sáttfús maður, vil ég nú bjóða hv. þm. Dal. það til samkomulags að kalla þá félaga framvegis afturhaldsmenn eða íhaldsmenn, eftir því sem afstaða þeirra til málanna gefur hverju sinni tilefni til. En þegar nefna þarf flokk þeirra á Alþingi einu heiti, sem lýsi flokknum, þá verður rétta heitið eftir sem áður: Íhaldsflokkur.