14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Torfason:

Ég hafði nú ekki haldið, að hinum gömlu íhaldsmönnum væri sérstök þörf á því að fara að síða menn hér fyrir uppnefni eða ótilhlýðilegan munnsöfnuð. Ég veit ekki til, að þeir séu betri en aðrir í því efni. Hvað mig snertir, þá hefi ég aldrei uppnefnt neinn pólitískan flokk, og ég hefi ekkert á móti að nefna Sjálfstæðisflokk, og mun gera það, þegar það á við. Ég vil vona, að flokkurinn geti smám saman áunnið sér það traust, að hann verðskuldi það nafn. En meðan hann hefir ekkert til að sanna, að hann geti borið nafnið, er ekki nema eðlilegt, að mönnum geti gleymzt að nefna hann því. Ég hefi annars aldrei kallað þennan flokk Íhaldsflokk, nema þá kannske óvart, en ég nefni stundum íhaldsmenn. Það er þá vegna þess, að stefna þeirra gefur tilefni til þessa heitis, og er í alla staði eðlilegt. Ég neita því alveg að taka hér á móti nokkrum hirtingum fyrir uppnefni.