14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (728)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Hákon Kristófersson:

Ég hefi skrifað undir nál. viðvíkjandi þessu máli fyrirvaralaust. Ég áleit, að þetta mál væri meinlaust og gagnslaust, en nú er það komið fram hér í d., að hv. þm. Borgf. telur réttara að hallast að þeirri till., sem fram er komin frá hv. 1. þm. Skagf., um að vísa þessu máli til stj., sem vitanlega hefir ekki aðra þýðingu en það, að málinu seinkar með að koma fram í lagaformi um eitt ár, eða til næsta þings.

Af því, sem upplýst hefir verið í umr. og fram hefir komið að öðru leyti, er engin ástæða til að vera á móti þeirri meðferð málsins, því að það getur engin áhrif haft á upp- og útskipun á þessum stað, hvort slíkt lagafrv. er samþ. í ár eða að ári.

Hv. þm. Mýr. benti á það, að mikilsvert er að ráða taxta á upp- og útskipun þarna, en þótt hagsmunir margra bænda standi þarna á bak við, þá get ég ekki séð, að hagsmunir neins eða neinna verði fyrir borð bornir, þótt þetta mál dragist þar til á næsta þingi. Það er þess vegna með fullkomnum velvilja til málsins, að ég get fallizt á að vísa því til hæstv. stj., og ég þykist vita, að hv. þm. Mýr. telur því ekki fyrir komið á neinn óhappastað, þótt því sé vísað til hennar. Ég vona, að hv. þm. Mýr. skilji ekki mín orð svo, að ég vilji á nokkurn hátt sýna þessu máli neinn óvilja, þótt ég sjái mér fært að verða við tilmælum hv. þm. Borgf. um að velja þessa leið.

Ég skal ekkert um það segja, hvernig fyrir þessu máli horfir hér í hv. d.; ég hefi ekkert tal átt um það við neinn nema hv. þm. Borgf.