31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (823)

22. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Eins og hæstv. forseti veit, hefi ég tekið tvisvar til máls og hefi því ekki heimild til annars en aths. til að bera af mér sakir. Ég ætla að fylgja þingsköpum, en ekki leiða umr. um þetta þýðingarmikla mál út á þær brautir, sem hæstv. dómsmrh. lagði út á í ræðu sinni í dag — og raunar bera vitni um það, að hann er þá djarfur í sókninni, þegar hann veit, að mótstöðumaðurinn getur ekki neytt sín til varnar eða andstöðu.

Hæstv. ráðh. flutti hér slúðursögu, sem ég hefi heyrt áður, — að ég hafi einhvern tíma látið í ljós, að það yrði ólifandi í landinu, ef annar fáni yrði lögleiddur hér og danski fáninn, sem þá var dreginn niður. Ég hefi heyrt þessa sögu áður hjá einum manni. Ég sagði honum, að þetta væri alveg tilhæfulaust, að ég hefi aldrei talað þessi orð, og hann gæti aldrei bent á neinn stað, þar sem þau yrðu fundin eftir mig. Enda er ég alveg viss um, að ég hefi aldrei talað þau.

Viðvíkjandi nafni á æðsta dómstól landsins var hæstv. ráðh. eiginlega kominn alveg yfir á mína skoðun, sem sé þá, að það er náttúrlega rétt, að þetta er æðsti dómstóll landsins, og það er þess vegna ekkert rangnefni að kalla hann hæstarétt; það er engin málfræðivilla. Hæstv. ráðh. sagði að þessu sinni ekki meira en það, að sér þætti nafnið ekki smekklegt. Ég hefi ekkert um það að segja, og yfir höfuð ekkert að því vikið, hvort mér þætti eitt eða annað heiti á þessum dómstól betra heldur en það, sem nú er. Ég hefi aðeins viljað leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. út af þessu.

Þá brá hæstv. ráðh. mér um óþjóðrækni og rökstuddi aðallega með því, að hann hermdi upp á mig ummæli, sem ég aldrei hefi haft, — að ég hefði sagt, að aldrei hefði orðið nein afturför hjá þjóðinni í þjóðlegum efnum. Þetta hefi ég auðvitað aldrei sagt. Það er svo alkunnugt öllum Íslendingum, að við höfðum afturfarar- og niðurlægingartímabil í nokkrar aldir. En hitt stendur fast, sem ég sagði í gær, að okkur tókst að varðveita okkar fornu og þjóðlegu menningu gegnum niðurlæginguna, þannig að við áttum hana óskemmda; en þetta hafði Norðmönnum ekki heppnazt.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta væri pólitískt mál hjá mér. Þetta er ekki rétt. Það er yfirleitt svo í landsmálum, að það er minna um það hjá mér en mörgum öðrum stjórnmálamönnum, að mál verði fyrir mér pólitísk eða snerti persónur. Og sízt finnst mér hæstv. dómsmrh. ætti að koma með ásakanir í þessa átt til nokkurs manns.

Ég þarf náttúrlega ekki að bera af mér neinar sakir í raun og veru út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um sorpblöð. En eins og ég skaut fram í ræðu hans, þá bar hún þess vitni, að maður getur stundum heyrt sorpblaðagreinar, þó að maður hliðri sér hjá að lesa sorpblöðin. Satt að segja getur varla farið hjá því, að ýmsum, sem heyrt hafa ræðu hæstv. dómsmrh. hér í dag — og jafnvel í gær —, þeim detti í hug, að þeim mönnum farist ekki að tala um sorpblöð hjá öðrum, sem standa sérstaklega að þeim blöðum, sem aðallega flytja orðfæri hæstv. ráðherra sjálfs.

Ég kalla það að bera af mér sakir, þegar ég enn leiðrétti það, að hæstv. ráðh. hafði eftir mér, að ég telji þá menn ófæra til vinnu, sem eru orðnir sextugir. Ég sagði það gagnstæða. Þeir eru venjulega vel vinnafærir, ef þeir eru ekki haldnir af sérstakri vanheilsu. En hitt er alkunnugt, að menn endast lengst til þess að vinna með fullum árangri að því starfi, sem þeir eru vanir. Það er erfitt að skipta um, og sérstaklega að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur, þegar menn eru komnir á hin efri ár.

En í þessu sambandi vil ég geta þess, að það gladdi mig, að hæstv. dómsmrh. er nú farinn að lagfæra frv. með viðaukum frá sjálfum sér í umr. Því að hann sagði, að þessir sextugu dómarar, sem samkv. frv. eiga að fara frá óskorað, fari frá með fullum launum. En þetta verður ekki stutt með neinu í stjskr. eða gildandi lögum, né heldur í frv. eins og það er.

Það væri náttúrlega margt fleira, sem ég hefði ástæðu til að leiðrétta í þessari stuttu aths. minni. Sérstaklega vil ég taka í einu lagi allar fullyrðingar hæstv. ráðh. um það, hvernig mín afstaða er til þeirra málsatriða í frv., sem ég alls ekki minntist á. Hann ímyndar sér, að hann sé svo alvitur, að hann geti fullyrt um það án þess að hann fái nokkra aðra vitneskju en úr sínum eigin kolli. Ég get þessa, til þess að það sé vitanlegt, að hæstv. ráðh. hafi ekki fengið neina vitneskju um mína afstöðu til þessara málsatriða, þótt hann gerðist nú til þess að lýsa henni.

Ég hefi ekki talað um neina flokksofsókn í sambandi við þetta frv. En ég hefi gert grein fyrir því, og það stendur alveg óhrakið eftir hina löngu ræðu hæstv. ráðh. í dag, að bæði einstök atriði og heildarsvipur þessa frv. fer í þá átt að gera æðsta dómstól landsins háðan umboðsvaldinu. Og slíkt má ekki eiga sér stað.