26.02.1930
Efri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

115. mál, samvinnufélög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Svo sem grg. þessa frv. ber með sér, er það fram komið eftir ósk Sláturfélags Suðurlands. Í grg. er skýrt frá ástæðunum fyrir því, að óskað er að frv. þetta komi fram. — Það er sem sé Sláturfélag Suðurlands, sem er samvinnufélag og óskar að geta starfað áfram á sama grundvelli. Það telur ekki fyllilega víst, að ákvæði þau, sem gilda í félaginu um kosningar til aðalfunda, séu í fullu samræmi við samvinnulögin, en hinsvegar telur Sláturfélag Suðurlands, að það fyrirkomulag, sem það hefir notað við þessar kosningar, hafi gefizt svo vel, að það vill ógjarnan breyta til. Færir það til m. a., að ef ætti að haga svo kosningum til aðalfundar samkv. því, sem samvinnulögin mæla fyrir, myndi af því leiða óþarflega marga fulltrúa, og af því aftur kostnað fyrir félagið, sem það telur ekki ástæðu til, en æskilegt að komast hjá.

Allshn. hefir athugað þetta frv. og getur ekki séð, að sú breyt., sem í frv. felst, geti á nokkurn hátt raskað þeim megingrundvelli, sem samvinnufélögin hvíla á, og leggur því einróma til, að frv. verði samþ.

Það er rétt að taka það fram, að stjórn Sambands samvinnufélaga Íslands hefir látið það uppi, að hún telji þessa breyt. vera réttmæta. Það sjá allir, að breyt. er ekki mikilsverð frá almennu sjómarmiði, en getur haft töluverða þýðingu fyrir Sláturfélag Suðurlands. Vona ég því, að hv. d. geti fallizt á þetta frv. og það nái fram að ganga.