17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. var lagt fyrir Alþingi í fyrra af hæstv. stj. og afgr. frá Nd., allmikið breytt þó. Þegar hingað kom, var því vísað til landbn., svo sem lög gera ráð fyrir, en samkomulagið varð nú ekki betra en það, að n. tvístraðist í þrennt; komu þrjú nál. fram og vannst svo ekki tími til þess að afgreiða málið, og dagaði það að lokum uppi. Nú, hefir sama n., sem skipuð er sömu mönnum og í fyrra, athugað frv. á ný, og má nú segja, að nokkuð hafi dregið saman með nm., því að nú kemur þd ekki nema eitt nál. frá allri n. Hinsvegar eru skoðanir nm. nokkuð skiptar um einstök atriði, t. d. vill hv. 5. landsk. fremur, að stofnanir þessar heiti lánsfélög, en hefir þó ekki gert það að ágreiningsatriði. Sömuleiðis flytur hv. 4. landsk. brtt. út af einu einstöku atriði í frv.

N. var á einu máli um það, að aðgangur sveitabænda til rekstrarfjár, einkum þeirra, sem eru fjarri bönkunum, er mjög takmarkaður og erfiður og telur þetta frv. heppilegt spor í áttina til að gera þeim greiðari aðgang að því. Ýmsir líta svo á, að varhugavert sé að gera bændum mjög greiðan aðgang að rekstrarlánum. Telja mikla hættu á, að þeir séu ekki almennt færir um að nota sér slík rekstrarlán til gagns, heldur geti þau oft og einatt orðið til nýrrar skuldasöfnunar.

N. er vel ljóst, að nokkur hætta getur verið hér á ferðum, en telur ekki rétt að láta hana vaxa sér mjög í augum. Vitanlega er mest undir því komið, að hæfir menn veljist til forstöðu sveitabankanna. Eitt er víst, að rekstrarlánafyrirkomulag líkt og hér er ráðgert hefir gefizt vel landbúnaðinum í sumum nágrannalöndum, t. d. Danmörku og Þýzkalandi, og virðist því tími til að reyna það einnig hér. Nefndin mælir því með því, að frv. verði samþ. í aðalatriðum. Aftur hefir hún leyft sér að koma fram með brtt. á þskj. 113, og þykir mér rétt að fara um þær nokkrum orðum.

Fyrri brtt. er við 4. gr. Er hún í tveim liðum; a-liður fer fram á að breyta a-lið 4. gr. frv. þannig, að í stað þess að hafa hámark félagatölu 30 manns, þá vill n. hafa þá 50. N. virðist æskilegt, að félögin yrðu ekki afarmörg og smá, heldur gæti komið til mála, þar sem tveir litlir hreppar liggja saman, að þeir hafi saman félag. Með þetta fyrir augum leggur n. til að breyta þessu ákvæði svo sem framar greinir.

Síðari liður fyrri brtt. á þskj. 113 er um að c-liður 4. gr. frv. orðist öðruvísi, þ. e. a. s. að inn í greinina bætist, að sveitabanka sé aðeins heimilt, en ekki skylt, að taka við innlögum frá mönnum, sem þó eru búsettir á félagssvæðinu, en ekki annarsstaðar. N. fannst viðurhlutamikið að svipta sveitabankana ódýru rekstrarfé, sem þeir kynnu að fá á þennan hátt, en vildi hinsvegar girða fyrir kapp og meting milli einstakra félaga um að fá sem mest innlánsfé, og fannst því rétt að takmarka það við félagssvæðið.

Þá er loks 2. brtt. á þskj. 113, um breyt. á 14. gr. frv. Vill n. láta orða 2. málsl. þeirrar gr. nokkuð skýrar. Í greininni segir svo:

„Lausafjárveð sveitabanka þarf eigi að víkja fyrir forgangskröfum í þrotabúi skuldunauts“.

N. leit svo á, að hér væri átt við forgangskröfur samkv. 82. gr. skiptalaganna, og flytur brtt. til þess að það komi skýrt fram.

Ég sé svo enga ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að svo stöddu, fyrr en þeir, sem flytja brtt., hafa talað fyrir þeim. Annars var þetta mál ítarlega rætt í fyrra, og nægir að vísa til þingtíðindanna í þeim efnum. Ég vona svo, að hv. d. greiði fyrir framgöngu þessa máls eftir föngum og samþykki brtt. þær, sem ég hefi nú gert grein fyrir.