17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

5. mál, sveitabankar

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. hefir nú lýst afstöðu n. til þessa máls. Ég hefi þó ástæðu til að gera aths. við síðustu orð ræðu hans, þegar hann talaði um brtt. við 14. gr. Kvað hann n. vilja breyta henni á þann hátt, sem segir í nál. Þetta er þó alls ekki rétt, því að n. er klofin um þetta atriði, eins og sjá má af fyrirvara þeim, sem ég hefi gert við undirskrift mína. Hv. frsm. hafði því ekki leyfi til að segja meira en að meiri hluti n. (sennilega) stæði að brtt. á þskj. 113 við 14. gr. Enda segir þetta sig sjálft, þar sem ég flyt sérstaka brtt. um að fella 14. gr. burt. Þetta er í samræmi við nál. frá mér á síðasta þingi. Reyndar var frv. töluvert öðruvísi, er það kom frá Nd. í fyrra. Ég gerði grein fyrir því í nál. í fyrra, að ég teldi óheppilegt, að lausafjárveð sveitabanka þurfi ekki að víkja fyrir forgangskröfum í þrotabúi skuldunauts. Með slíku ákvæði er vinnufólk bænda svift réttindum, sem bændur hafa sjálfir lögtekið, að þetta fólk skuli hafa. Kaup vinnufólks eru forgangskröfur, sem samkv. þessu frv. skulu víkja fyrir lausafjárveði sveitabanka. Samkv. brtt. b. á þskj. 113 skal lausafjárveð sveitabanka aðeins víkja fyrir forgangskröfum samkv. 82. gr. skiptalaganna, þ. e. a. s. jarðarfararkostnaði og þvílíku. Hvorttveggja þetta hefir í för með sér stóra réttindaskerðingu fyrir fjölda fólks í sveitum.

Önnur ástæðan er sem sé sú, að þetta rýrir lánstraust bænda. Ef þessi brtt. öðlast gildi, þá er óhjákvæmilegt, að aðrir en sveitabankinn, t. d. sparisjóðir og kaupmenn og kaupfélög, sem víða eru aðallánardrottnar bænda, hljóta að kippa að sér hendinni. Því mun hér verða svarað til, að sveitabankinn komi í stað þessara lánardrottna með nægilega mikið rekstrarfé. En ég er ekki ennþá farinn að sjá, að þó að þessi félög verði stofnuð, geti það gengið svo langt, að bændur geti fengið þar öll þau lán, er þeir þyrftu, og yrðu þeir því eftir sem áður að leita til sparisjóða, banka, kaupmanna eða kaupfélaga. En þessi leið er þá í rauninni gersamlega, — eða a. m. k. að miklu leyti — lokuð fyrir þeim, sem berjast í bökkum. Ef þeir eru búnir að binda búfé sitt fyrir láni í sveitabanka, þá væru aðrir ófúsir á að lána þeim fé eða vörur. Því getur þetta orðið til mikils baga fyrir bændur sjálfa, að binda þetta svo við sveitabankann.

Ég legg því til, að 2. mgr. 14. gr. verði felld niður og get ekki fallizt á brtt. á þskj. 113.

Þá er annað atriði í þessari gr., sem líka spillir lánstraustinu. Ég skil ekki í að það skuli standa þar, þótt ég hafi ekki gert brtt. við það. Það er lögtaksrétturinn á hendur félagsmanni. Mér skilst, að það sé til þess að gera alla innheimtu auðveldari, en það er líka, eins og mgr. næsta á undan, til þess að rýra möguleikann fyrir bændur að fá lánsfé. Því þegar þessi lánardrottinn hefir svo miklar tryggingar og auðvelda aðstöðu til innheimtu, þá verða aðrir varfærnari. Og þetta, sem hér um ræðir, bitnar ef til vill mest á þeim, sem fátækastir eru, því eftir lögunum er sennilegast, að lánsfélagið skipti lánsfénu niður á félagsmenn eftir því, sem hver og einn getur staðið undir. Það getur þá farið svo, að þeir ríkari skeri við neglur sér það, sem þeir fátækari fá. Þótt ég hafi gert þessar aths. við frv., þá er þetta þó ekki svo að skilja, að ég vilji bregða fæti fyrir frv. En ég vil jafnframt benda á, að jafnhliða þessu máli þarf að ýta áleiðis þeirri lánsstofnun fyrir sjávarútveginn, sem lengi hefir verið á döfinni hér á Alþingi, lánsstofnun, sem oft hefir verið óskað eftir og fluttar margar till. um. Ég mun við þessa umr. fylgja frv., en náttúrlega tek ég það til yfirvegunar síðar, við næstu umr., hversu langt ég muni geta gengið, ef þessar till. verða felldar, sem ég hefi gert að umræðuefni.