12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (1022)

22. mál, bókhald

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv. lá fyrir hv. Ed. í fyrra og náði samþykki d., en varð ekki útrætt í hv. Nd., enda var þess tæplega að vænta, þar sem frv. kom seint fram.

Við umr. í fyrra kom það í ljós, að ýmsir hv. þm. litu svo á, að í frv. væri gengið nokkuð langt í þá átt, að skylda menn til þess að hafa tvöfalt bókhald.

En frv. fór þó óbreytt að mestu til hv. Nd, hvað þetta atriði snerti. Þó voru nokkrar breyt. gerðar og ákvæði frv. nokkuð milduð í þessu efni, og ætla ég, að það hafi verið til bóta.

Nú hefir allshn. athugað frv. þetta að nýju, og er hún sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem aðallega miða að því að draga úr bókhaldsskyldu smærri fyrirtækja og atvinnurekenda.

Fyrsta brtt. n. á þskj. 126 er við 3. gr. frv., 3. lið, og gengur út á það, að í stað „6 smál.“ komi: 12 smálesta. Í frvgr. er sagt, að þeir, sem starfrækja 2 bata undir 6 smál. brúttó hvorn, skuli undanskildir bókhaldsskyldu. N. sér ekki ástæðu til að binda þetta við svo litla bata, og leggur því til, að bókhaldsskyldan sé bundin við 12 smálesta bata.

Þá leggur n. einnig til, að bætt sé aftan við sama lið sömu gr. orðunum: „Nemandi er í lögum þessum talinn aðstoðarmaður“. Ef handiðnamaður hefir t. d. 2–3 nemendur, þá gæti auðveldlega orðið ágreiningur um það, hvort bæri að telja þá aðstoðarmenn eða ekki. N. vill hafa glögg ákvæði um þetta, til þess að koma í veg fyrir allan slíkan ágreining.

Þá er brtt. við 5. gr. Þessi gr. verður ekki skilin öðruvísi en að gert sé ráð fyrir, að samriti af færslu frumbókar skuli skilað í hvert sinn, sem einhver skipti verða milli tveggja aðila. En n. vill ekki binda slíka skyldu við smáviðskipti milli tveggja aðila, t. d. ef hlutur er keyptur af smið, en telur það aftur á móti rétt, ef um verzlunarviðskipti er að ræða. — Leggur því n. til, að í stað orðanna „verzlunarviðskipti“ í 1. málsgr. komi: viðskipti, — og í stað „vöruna“ komi: vöru, — og upphaf síðari málsgr. orðist svo: „Í verzlunarviðskiptum skal samrit af færslu frumbókar jafnan látið viðskiptavini í té“.

Þá er loks brtt. við 14. gr., að orðið „bókhaldsskyldum“ í niðurlagi gr. falli burt. Það er gert ráð fyrir því í 14. gr., að hver bókhaldsskyldur maður skuli geyma í skipulegri röð öll bréf og símskeyti, sem viðkoma atvinnu hans og hann tekur á móti, og ennfremur geyma samrit af öllum bréfum og símskeytum, sem hann sendir öðrum bókhaldsskyldum og viðkoma atvinnu hans. En n. taldi réttara, að halda skuli eftir afriti af öllum viðskiptum, hvort sem þau eru við bókhaldsskylda eða ekki, enda ætti það ekki að valda mönnum neinum erfiðleikum að ráði.

Þá, hefir n. komizt að þeirri niðurstöðu, eftir að hún skilaði nál., að rétt væri að fella niður 21. gr. Þar segir, að „þeir, sem bókhaldsskyldir eru samkv. eldri lögum, en eigi færa bækur, sem fullnægja ákvæðum laga þessara, mega hafa bókhald sitt óbreytt til loka reikningsárs þess, er yfir stendur, er lög þessi öðlast staðfestingu“.

Lögin öðlast gildi 1. jan. 1932, eins og tekið er fram í 24. gr. N. telur því, að lögin skuli ná jafnt til allra, sem bókhaldsskyldir eru samkv. þessum l., og vill því fella niður 21. gr. .

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þessar fáu brtt. n. Hún telur, að þær séu allar til bóta, og vonar, að þær verði samþ.