11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (1155)

8. mál, vitagjald

Jóhann Jósefsson:

Ég vil taka það skýrt fram, að það er meining sjútvn. með brtt, á þskj. 127 að slá því föstu, að ríkinu sé skylt að láta vitagjaldið renna eingöngu til vitamálanna og þess, er þar að lýtur. Að telja hafnargerðir og lendingarbætur heyra þar undir, finnst mér stappa nærri hártogun. Þó segja megi, að góðar hafnir geri siglingar umhverfis landið tryggari, er auðvitað ekki ætlazt til, að vitagjaldið gangi til hafnargerða. Það er auðsætt, að það er ekki öryggi skipanna inni á höfnum, sem átt er við í brtt., heldur öryggi þeirra á siglingaleiðunum umhverfis landið. Og það öryggi er tryggt með vitum, uppmælingum, sjómerkjum og þesskonar. Eins og segja má, að hafnir auki öryggi siglinganna, er hægt að segja, að góð skip geri hið sama. En það er alls ekki meiningin að verja vitagjaldinu til skipakaupa.

Hv. 1. þm. N.-M. sagðist ekki sjá, að mikill munur væri á orðalagi frv. og brtt. sjútvn. Þetta má til sanns vegar færa. Og e. t. v. hefði sjútvn. ekki séð ástæðu til að leggja neitt til þessa máls, ef hv. þm. hefði ekki haldið því fram þegar málið var hér áður til umr., að með frv. væri engin breyt. gerð á því ástandi, sem nú er. Ég ætla ekki að fara að taka upp ágreining þann, er varð milli hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Borgf. um þetta mál, en ég verð þó að segja, að ég var þar á sömu skoðun og hv. þm. Borgf. Hann hélt fram, að frv. kvæði skýrara á um það, til hvers ætti að verja vitagjaldinu, heldur en eldri lög gerðu. Hv. 1. þm. N.-M, andmælti þeim skilningi á frv., og með tilliti til þess fannst sjútvn. ástæða til að taka af öll tvímæli í þessu efni. Finnist hv. þm. brtt. óþörf, má hann því sjálfum sér um kenna, að hún er fram komin.

Um þörfina á að endurbæta og auka við vitakerfið er óþarfi að fjölyrða. Það mun vera hverjum meðalgreindum manni ljóst, hvað hún er brýn. Meðan till. mþn. þeirrar, er um þetta mál hefir fjallað, eru ekki fullkomlega komnar í framkvæmd, er nauðsynlegt að verja vitagjöldunum óskiptum til þess að koma vitakerfinu í sæmilegt horf.