25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í C-deild Alþingistíðinda. (1246)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Ég get lagt það undir dóm þeirra tveggja flokka, sem hv. þm. Ísaf. beindi orðum sínum til, hvort hann hafi snúizt í þessu máli eða ekki. Ég vil þó minna hann á, að till. mín og hv. 2. þm. G.-K. í fyrra var ekki einungis um það að taka ábyrgð á sparisjóðsfénu, heldur einnig um að skjóta inn í bankann 3 millj. kr. Það getur vel verið, að hv. þm. vilji nú fóðra afstöðubreytingu sína með því, að bankinn sé orðinn ríkiseign að meiri hluta. Hann vill kannske hæla sér af því að hafa komið þessu þrotabúi, sem hann kallar, á landið.

Ég óska og vona samkv. loforði hæstv. forsrh. að fá að vita á seinna stigi þessa máls, hvort ennþá vofir yfir ríkissjóði ábyrgðin á því fé, sem lánað var til útgerðarinnar í fyrra. meðan Íslandsbanki var stöðvaður.