14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

77. mál, fiskimat

Sveinn Ólafsson:

Frá því að þetta frv. kom fram og lá fyrir til 2. umr., hefir það gerzt, að sjútvn. hefir borizt erindi frá utanríkisstj. dönsku um það, að kvartanir hafi borizt frá spönskum stjórnarvöldum um efni bráðabirgðalaganna. En þessar kvartanir eru byggðar á því, að hagsmunavonir ýmsra spánskra þegna, einkum hafnarstarfsmanna og smásala, spillist við framkvæmd laganna. Sú ráðstöfun, að fyrirskipa flutning fiskjar héðan í umbúðum, kom beinlínis fram fyrir beiðni neytenda og milliliða í Barcelona á sínum tíma, og kemur því þessi kvörtun spánskra stjórnarvalda mjög óvænt.

Fulltrúi Íslands í utanríkisráðuneytinu, Jón Krabbe, hefir jafnhliða skýrslu um bréfaskipti við spönsk stjórnarvöld um málið lagt það til, að frv. verði breytt í þá átt, sem sjútvn. leggur til á þskj. 143, þ. e. a. s., að ráðuneytinu sé heimilað að skipa svo fyrir, að allur útfluttur fiskur sé bundinn í bagga og hafður í hæfilegum umbúðum. Og þessi ákvæði séu ekki eingöngu miðuð við Spán, heldur nái jafnt til allra Miðjarðarhafslandanna.

Eins og kunnugt er, hefir í seinni tíð nær allur fiskur, sem fluttur hefir verið til Spánar, verið í þeim umbúðum, sem hér um ræðir, þótt engin fyrirmæli séu um það í fiskimatslögunum frá 1922.

Með því nú að sjútvn. var ekki kunnugt um till. J. Krabbe fyrr en eftir 2. umr. málsins, þá gat þetta ekki komið fyrr fram hér í deildinni. Hæstv. atvmrh. fór þess á leit við n., að hún tæki þessar till. til greina og bæri fram brtt. við frv. í samræmi við framkomnar óskir spánskra stjórnarvalda um þetta efni.

Ég ætla svo eigi að fara fleiri orðum um þetta nú, en vænti þess, að hv. þdm. hafi getað áttað sig á málinu og viðhorfi þess og geti fallizt á brtt. n. á þskj. 143.