21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (1281)

1. mál, fjárlög 1932

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég vil þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir þá sanngirni, sem hann sýndi í fyrri ræðu sinni, en mér kom á óvart, að þessi sami ótti hafði gripið hann í seinni ræðunni eins og hv. 1. þm. Reykv. þeim, sem í minni hl. eru, er nokkur vorkunn um slíkt. En eftir að ég hafði lyst yfir því, að engar fastar ákvarðanir hefðu verið teknar um framhald umr., heldur yrði það fyrst gert, þegar samkomulag hefði náðst við flokkana, þá hélt ég, að þessi ótti mundi sefast.

Þessháttar umr., sem hér hafa farið fram, eru óþarfar, þegar búið er að tala um það úr stjórnarflokknum, að samkomulags verði leitað um, hverju skuli útvarpað. Ég vona, að það takist, en ef það verður ekki, mun ég skorast undan því að ákveða, hvernig útvörpun skuli framvegis háttað. Þá verður að setja um það lög eða þáltill. En ef menn vilja vinna að samkomulagi, verða allir að vera sanngjarnir.

Útvarpið er að hefjast í okkar landi. Áður en fastar reglur hafa myndazt, hefir tvennu verið útvarpað úr þinginu, þingsetningu og fjármálaræðunni. Fleiru geri ég ekki ráð fyrir, að verði útvarpað, áður en samkomulag er fengið eða ákvarðanir settar.

Út af fyrirspurn hv. þm. Dal. vil ég svara því, að útvarpsráðið taldi æskilegt, að fjármálaræðunni væri útvarpað, og ég hafði ekkert á móti því, þegar mér var tilkynnt það.