11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (1455)

44. mál, hafnargerð á Dalvík

Bernharð Stefánsson:

Ég vil taka undir þau orð beggja hv. frsm. n., að málið sé í sjálfu sér útrætt með því, sem sagt hefir verið um hin hafnarmálin. Það er því engin ástæðu fyrir mig að tala langt mál um þetta, þar sem ég hefi líka áður gert grein fyrir mínu áliti. Ég stend því upp aðeins til að láta þakklæti mitt í ljós til þeirra hv. nm., sem mælt hafa með frv., auðvitað fyrst og fremst til þeirra, sem undirskrifuðu nál. minni hl. á þskj. 187, þar sem þeir leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég skal þó taka það fram, að meiri hl. á líka nokkurt þakklæti frá mér skilið, vegna þess að þeir leggja til, að málið nái fram að ganga, þó að till. þeirra geri frv. óaðgengilegra fyrir héraðið en það var eins og ég flutti það. Út af till. þeirra vil ég segja það, að ég gæti kannske gengið að þeim til samkomulags, en þá yrði til samræmis að samþ. líka þær samskonar brtt. við hin önnur hafnarlagafrv., sem nú eru hér á döfinni, og ég held líka, að lögin um höfn á Skagaströnd ættu að breytast í sambandi við þetta. Á þetta var bent í fyrra, og ég geri það líka nú.

Báðir hv. frsm. álíta ekki eins aðkallandi þörf fyrir höfn á Dalvík eins og á hinum stöðunum, en ég álít það ekki rétt, a. m. k. ekki að því er Sauðárkrók snertir, en Akranesi er ég ekki eins vel kunnugur.

Það er auðvitað undir mati manna komið, hvað getur kallazt mikill útvegur. Ég hygg þó, að á Dalvík sé eins mikill útvegur og á Sauðárkróki, og skilyrði eru þar að ýmsu leyti góð. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að frá Dalvík væri stutt á góðar hafnir. Ég held þó, að það sé eins langur sjóvegur milli Dalvíkur og Siglufjarðar eins og milli Siglufjarðar og Sauðárkróks, og langt er frá Dalvík inn á Akureyri.

Það sýndi sig í fyrra, að það sama var látið ganga yfir þetta mál sem hin tvö hafnarmálin, og sé ég því ekki ástæðu til að fara út í þetta mál sérstaklega.