01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í C-deild Alþingistíðinda. (1645)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Sveinn Ólafsson:

Ég hafði hugsað mér að sitja hjá við þessar umr., en nokkur orð í ræðu hv. 2. þm. G.-K. komu mér til að biðja um orðið.

Ég ætla að koma seinna að þeim orðum hv. þm., en vil þegar geta þess, að frv. þetta er, að minni hyggju, alls ekki vandlega undirbúið. Í það vantar mjög margar upplýsingar og grg. frv. er fjarri því að gefa ljósa hugmynd um kostnað af dreifingu raforku til héraðanna umhverfis, sem þó eru annað aðalatriði málsins. Ég er ekki sérfróður um þessi mál, en mér er kunnugt um það, að jafnvel þar, sem lönd eru miklu þéttbyggðari en sveitir þessa lands, þar hefir gengið treglega dreifing raforkunnar, jafnvel talin illkleif þar, sem þéttbýli hefir ekki náð 30 manna meðaltali á ferkílómetra hverjum, en slíkt þéttbýli þekkist varla á voru landi utan bæja og verstöðva. Ég get ekki trúað því, og það þarf að segja mér það oftar en tvisvar og sýna mér fram á það með fullum rökum, að dreifing orku frá þessari Sogsvirkjun gæti orðið almenningi að fullum notum með kleifum kostnaði í Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Borgarfjarðarsýslu eða Mýrasýslu.

Ef peningar væru óþrotlegir til að leggja í svona fyrirtæki, þá má vitanlega dreifa orkunni miklu víðar, en ef hestorkan reynist 6–10 hundruð króna virði í strjálbyggðu sveitunum, komin að húsvegg, sem reyndar er sennilegt, þá þarf ekki að gera ráð fyrir almennum orkunotum.

Það, sem ég finn einkanlega að frv., er það, að það gerir alls enga grein fyrir dreifingarkostnaði, en með grg. er látið í veðri vaka, að þetta muni allt falla í ljúfa löð. Það er því óneitanlega rétt, sem hæstv. dómsmrh. tók fram, að þegar ríkið væri búið að ganga í ábyrgð fyrir stórláni til Rvíkur, til þess að koma virkjun á fót, þá mundi það ekki geta neitað sveitunum á eftir um ábyrgð til þess að hagnýta sér orkuna. En þá mundu líka í ljós koma háu tölurnar, sem frv. felur með óljósum orðatiltækjum.

Ég vil nú ekki gefa tilefni til þess, að umr. þurfi að lengjast úr því, sem komið er. Mér virðast þær að miklu leyti hafa verið óþarfar. Þetta mál þarf að athugast af nýju í n. (ÓTh: Það er búið að vera í n.). Já, það er flutt af allshn., en það þyrfti að fara til fjhn. af nýju og á þar heima.

Áætlun hv. 2. þm. Reykv. um þann kostnað, sem grg. dylur, finnst mér ófullnægjandi og jafnvel villandi.

Að lokum skal ég minnast þeirra spaklegu orða hv. 2. þm. G.-K., sem komu mér til að standa upp. Hann minntist á það, að með frv. væri verið að leika loddaraleik fyrir kosningar. Auðvitað getur ekki átt við að kalla það loddaraleik, þótt fundið sé að göllum frv. og blekkingunum, sem því fylgja; á það er skylt að benda. En hv. þm. kom fram með rétt orð yfir flutning þessa máls, eins og það horfir hér við, og er ég honum innilega sammála um það, að flutningur þessa frv. sé helber loddaraleikur, og jafnvel mjög sniðugur loddaraleikur. — svona rétt fyrir kosningarnar.

Ef ég hefi nú æst hv. þm. upp með þessu, þá verður það að fara eins og fara vill, en ég ætla að láta hér staðar numið og sjá, hverju fram vindur. En tilbúinn er ég þó á hverri stundu að greiða málinu götu til einhverrar þeirrar n., sem betur gæti búið um hnútana en gert hefir verið.