11.03.1931
Efri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í C-deild Alþingistíðinda. (1726)

109. mál, fátæktarlög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frv. við þessa umr., en ég vil aðeins vekja athygli á 2. málsliðf 1. gr. Ég tel, að það fyrirkomulag, sem þar er lagt til, sé mjög varhugavert. Þar er fyrst og fremst opin leið til þess að misnota þetta ákvæði allfreklega. og auk þess er þar farið inn á þá braut, að ríkissjóður taki að sér fátækraframfærsluna. Ég veit að vísu, að sú skoðun hefir komið fram, að ríkissjóður eigi að annast alla fátækraframfærslu, en þeirri skoðun er ég mótfallinn. Mjög líklegt er, að af þessu ákvæði geti leitt allmikil ný útgjöld fyrir ríkissjóð. En ég tel það ekki góða aðferð, að ákveða útgjöld ríkissjóðs í sérstökum lögum, sem síðan gleymast að nokkru leyti við samningu fjárlaganna, en verða þó að greiðast. Ég vil aðeins benda á að þessu sinni, að hér er verið að auka útgjöld ríkissjóðs á varhugaverðan hátt. Ég sé ekki ástæðu til að fara inn á hitt, að atvmrh. skuli úrskurða um fátækraflutningana, þótt ég búist við, að heldur verði örðugt fyrir hann að fella dóma um slíkt. Ég tel ennfremur víst, að hægt sé að koma í veg fyrir fátækraflutningana með allt annari aðferð en þeirri, sem lögð er til í þessu frv.