11.03.1931
Efri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í C-deild Alþingistíðinda. (1734)

109. mál, fátæktarlög

Jón Baldvinsson:

Mér virðist sem hv. þm. Snæf. hefði getað sparað sér þessi köpuryrði til mín, því að ég tók frv. miklu betur en hann sjálfur. Hann byrjar á því, að þakka flm. fyrir frv., skammar aðra, sem um það hafa talað, og lagðist svo sjálfur á móti því af miklum móði. Stundum virðist hann vera á sama máli og fjmrh. Hina stundina er hann æstur fylgismaður minn, og vil ég mega vænta þess, að hann sýni sama vilja við atkvgr.

Hitt vil ég vera láta í fátækralögum, að engan megi svipta mannréttindum, þótt þegið hafa sveitarstyrk. Annars vil ég enga vægð sýna þeim landshornamönnum, sem flækjast sveit úr sveit, og vilja engan lit sýna á greiðslu meðlags með börnum sínum, þótt þeim ætti að vera slíkt auðvelt. Nú er svo komið, að hægt er að neyða slíka menn til að vinna á ómagahæli. Og þannig er hægt að láta þá taka út hegningu fyrir brot sín við þjóðfélagið. En ég fæ ekki séð, að þessi fátækraflutningur sé nokkur vörn. Slíkt hefir engin áhrif.

Hv. þm. vill oft verða lítið til dýrtíðarinnar í Reykjavík, og segja, að sveitirnar geti ekki borgað styrk handa þurfalingum sínum þar. En þetta er sveitunum sjálfum að kenna, því að þær hrinda fátæklingunum af sér til Reykjavíkur. Ég veit dæmi þess, að sveit hefir leigt húsnæði handa fólki, án þess að það hafi verið reiknað sem fátækrastyrkur, yfir það tímabil, sem fólkið var að nú sveitfesti í Reykjavík. Og í sama tilgangi láta sveitirnar þm. sína vinna að því á þingi að stytta sem mest sveitfestina.

Hv. þm. Snæf. telur, að fátækralögin séu orðin mjög úrelt og að þau þurfi gagngerðrar breytingar. Það er ekki nema gott til þess að vita, að hann lýsi þessu nú yfir, ég mun gefa honum tækifæri til þess á þessu þingi að standa við þessi orð sín, að fylgja gagngerðum breytingum á fátækralögunum. Væri gott, að hann hefði einnig betrandi áhrif á flokksbræður sína í þessu efni.