10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

332. mál, bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Svo sem grg. sýnir, er frv. þetta flutt af sjútvn. eftir tilmælum hæstv. dómsmrh. Að öðru leyti sýnir grg., hvernig á því stendur, að frv. þetta er flutt, og hefi ég litlu við það að bæta.

Hinsvegar skal ég geta þess, að þó að sjútvn. flytji frv., þá er eitt atriði í því, sem n. getur ekki fellt sig við, og mun hún flytja brtt. við það við 2. umr., ef það kemur í ljós, að frv. fer ekki til n. aftur, sem ég tel alveg óþarft.

Þetta atriði, sem n. vill breyta, er um sektirnar. Frv. gerir ráð fyrir, að lágmark þeirra sé fært niður, en n. sér ekki ástæðu til þess.

Sé ég svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta, en lít svo á, að ekki sé ástæða til að láta það fara til nefndar.