09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (1905)

92. mál, erfðaleigulönd

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er ágætt að fá fram aths. við frv. þegar við þessa umr., því að þá eru meiri líkur til, að landbn. takist að gera það vel úr garði.

Hv. þm. Borgf. taldi, að jarðræktarlögin nægðu um þetta efni, og þyrfti því ekki nýja lagasetningu. En reynslan hefir nú einmitt sýnt, að þau nægja ekki, og því helzt enn sama óreglan í þessu efni, að ekki hefir verið hægt að nota ákvæði jarðræktarlaganna. Þetta frv. er því til stórra bóta, enda viðurkenndi hv. þm. Borgf. það í öðru orðinu og taldi þörf á nýrri löggjöf.

Hv. þm. Borgf. drap á ákvæði 11. gr., þar sem svo er til tekið, að þótt verð á landi hækki af öðrum orsökum en ræktun, þá njóti jarðeigandi ekki góðs af því. Ég álít heldur ekki rétt, að hann geri það, ef hækkunin er að engu leyti fyrir hans atbeina. Annars er þetta ekkert aðalatriði í frv. Hinsvegar er það mín persónulega skoðun, að það sé síður en svo æskilegt, að mikil verðhækkun eigi sér stað á landi, svo að hún skapi mönnum aukin gjöld.

Þá drap hv. þm. Borgf. á það ákvæði frv., að fela sérstökum manni umsjón þessara mála, og vildi, að Búnaðarfél. Íslands hefði þau með höndum. Í 5. gr. frv. er vikið að því, hvað ætlazt er til, að Búnaðarfél. starfi kauplaust að þessum málum. Hinsvegar hefi ég ekkert á móti því, að jarðræktarráðunaut félagsins eða búnaðarmálastjóra verði falið eftirlitið. En ég tel réttara að fela það einhverjum ákveðnum manni en Búnaðarfél., án þess að nánar sé til tekið. Samræmis vegna teldi ég réttast, að það væri búnaðarmálastjóri. Auðvitað hlyti að leiða nokkurn kostnað af þessu eftirliti fyrir Búnaðarfél., sem greiðast yrði óbeint úr ríkissjóði. Ég geri fyrir mitt leyti ekki að kappsmáli, hvor leiðin er farin.