09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (1924)

94. mál, sauðfjármörk

Hannes Jónsson:

Hv. 1. flm. má sjálfum sér um kenna, ef honum hefir þótt ég svara of sterklega. Hv. þm. byrjaði með ákúrur á okkur, sem varlega viljum fara í það að auka útgjöldin.

Um það, sem ég sagði, að svo gæti farið, að tekin væru mörk frá Húnvetningum og lögð til Borgfirðinga, eða tekin mörk af einu héraði og lögð til annars, þá get ég ekki séð, þrátt fyrir mótmæli hv. flm., að nein skýr ákvæði séu um þetta í frv. (JörB: 15. gr.). Nei, þau eru einmitt ekki í þeirri gr. Og þótt ég lesi 16. gr., þá eru þau þar ekki heldur.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði hafið árás á dauða menn. Mér finnst nú allmerkilegt, ef ekki má nefna mál fyrir þá eina sök, að einhverjir eru dánir, sem við þau hafa verið riðnir á sínum tíma.

Ég held, að hv. 1. þm. Árn. væri þá bezt að hverfa sem fyrst úr þessum synduga heimi, ef hann vill skjóta sér undan ábyrgð. (ÓTh: Er hann svona syndugur?) — Ég trúi, að það muni verða nokkuð örðugt að koma á fullri samvinnu milli markadóma héraða landsins. En það er hæpið, að fullnæging fengist á þennan hátt, þó að það mundi hafa minni kostnað í för með sér og þann stóra kost, að það yrði meiri trygging fyrir glöggskyggnum mönnum í þessa dóma. Þetta er atriði, sem landbn. getur máske greitt úr og leitt í betri höfn og kostnaðarminni en í frv. er farið fram á.

Þessa aths. vil ég gera við síðustu ræðu hv. flm. og vil mælast til við landbn., að hún gangi greinilega frá þessum ákvæðum 15. og 7. gr. frv. um rétt manna til marka sinna, sem þeir hafa haft.