13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

117. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi litlu við það að bæta, sem ég sagði áðan. Hv. þm. V.-Húnv. efaðist um, að ég hefði skilið þessi lög rétt, en ég held fast við, að enginn efi er á því, að þeir menn, sem einungis látast eiga heimili á öðrum stað en þeir dvelja og eiga raunverulegt heimili, eru útsvarsskyldir þar, sem þeir dveljast, en ekki þar, sem þeir þykjast eiga heima. Ég er óhræddur að leggja það undir dómstólana.

Út af orðum hv. 3. þm. Reykv. skal ég ekki segja margt. En hann misskilur mig, ef hann heldur, að ég hafi sagt, að útsvarslöggjöfin hafi staðið lengi. (JÓl: Línurnar!). Nei, heldur ekki línurnar, því að fyrri línan, til 1926, var að leggja meira og meira á menn annarsstaðar en þeir voru heimilisfastir. En 1926 var tekin sú stefna, að leggja aðallega á menn þar, sem heimili þeirra er. Það er skammt síðan 1926, og strax bólar á því, að menn vilja fara inn á hina stefnuna, sem „kulmineraði“ 1924, þegar lögin fyrir Reykjavík voru sett, og þó gengu þau ekki eins langt og þetta frv. gerir.

Hv. þm. sagði, að vel mætti treysta niðurjöfnunarnefndum til þess að leggja einnig á þá, sem ekki eiga heimili innansveitar. En það var nú einmitt aðallega yfir því kvartað áður, að óhóflega væri lagt á þá menn, sem ekki voru búsettir á sama svæðinu og nefndirnar.

Það er heldur ekki svo, að ekkert gjald sé á húsum hér í bænum. Bærinn tekur gjöld af fasteignum, og þau ekki lág. Húseigandi verður að borga þau, og koma þau upp í það, sem bærinn gerir fyrir fasteignaeigendur.

Annars tel ég ekki þörf á að ræða málið frekar við 1. umr., en vil endurtaka, að ég álit heppilegt, að þessi frv., sem eru hér fyrir hv. d. um breytingar á sömu lögum, verði sett í eina heild.