13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

117. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Já, ég mun sannarlega vera á verði, ef til þess kemur, að Reykjavíkurbær ætlar sér að fara að skattleggja sparifé landsmanna, og því er ég á móti frv. þessu, að ég vil ekki fara inn á þá braut, sem hæglega getur leitt til þess, að slíkt verði gert. Ég er ekki hræddur við nýjar brautir, nema þegar ég sé fyrirfram, að verið sé að fara inn á háskabrautir.

Hv. 2. þm. Eyf. var að tala um, að ég hefði heykzt á frv. um byggðarleyfi eins og hann sjálfur. En uppgjöf hans sjálfs í því máli er töluvert meira áberandi, þar sem hann flutti frv. fyrstur inn í þingið og stjórnin greiddi honum 500 kr. fyrir að gera það úr garði. Ég segi þetta ekki af því, að ég sjái eftir þessum 500 kr., því að ég álít málið meira virði en þeirri upphæð nemur. En þetta sýnir, að frv. var miklu nákomnara hv. 2. þm. Eyf. en mér.