23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í C-deild Alþingistíðinda. (2009)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Sigurður Eggerz:

Ég ætla, að enginn ágreiningur sé um það, að heppilegt sé að fá sem beztan markað fyrir kældan fisk. En deilan stendur um hitt, hvort hér skuli tekið upp ríkisrekstrarfyrirkomulagið eða ekki. Í grg. frv. er sagt, að þrátt fyrir markaðsleitir hins opinbera og tilraunir einstakra manna hafi ekki tekizt að stækka fiskmarkaðinn. M. ö. o. hefir hið opinbera haft þessar markaðsleitir á hendi og þær misheppnast með öllu, og þá á að fela því opinbera fisksöluna að nokkru eða öllu leyti, eftir að þessi reynsla er fengin. Skyldi nú ekki vera betra að leita til einstaklingsframtaksins, sem skapað hefir allt hið bezta í þessu landi, og fá atvinnurekendur til að bindast samtökum um að taka þetta mál í sínar hendur og setja upp skrifstofu, sem fengi styrk frá því opinbera?

Markaðsleitir hins opinbera hafa til þessa komið að nauðalitlu gagni. Menn hafa siglt til annara landa, dvalið þar nokkurn tíma, komið heim aftur, skrifað pésa — og búið! En það er ekki nægilegt að skrifa pésa um markaðshorfur í einhverju landi. Það þarf að senda þangað sýnishorn af vöru þeirri, sem verið er að selja, og gera ýmsar fleiri ráðstafanir. Öflun nýrra markaða hefir verið með öllu vanrækt hjá okkur til þessa. Allar aðrar þjóðir leggja mjög ríka áherzlu á þetta atriði, en við höfum til þessa flotið sofandi að feigarósi. En ég treysti einstaklingsframtakinu betur, í þessum efnum sem öðrum, en ríkisrekstrinum.

En hvað er það nú eiginlega, sem komið hefir þessu frv. af stað? Eru það ekki einmitt tilraunir einstaklinganna, sem vakið hafa eftirtekt þeirra, sem trúa á ríkisrekstur í þessum efnum? Ég hefi þá trú, að einstaklingsframtakið hafi möguleika til að skapa sér góðan markað í framtíðinni, ekki sízt ef það nýtur einhverrar hjálpar ríkisvaldsins. En ef ríkið á að fara að koma sér upp skipastól og taka fisksöluna í sínar hendur, verður það aðeins til að kippa úr þessum möguleikum, eins og raun hefir á orðið um síldareinkasöluna.

Ég álít, að það einasta, sem ríkið gæti gert að því er fisksöluna snertir, væri, líkt og við flutning á kældu kjöti, að greiða fyrir nauðsynlegum samgöngum.

Ég tel það mál, er hér liggur fyrir, gott mál að því leyti, að þar er lögð áherzla á að leita að nýjum mörkuðum, en er því hinsvegar algerlega mótfallinn, eins og ég hefi þegar sagt, að ríkissjóður taki þessa fiskverzlun í sínar hendur. Enda myndi þess ekki langt að bíða, að einokunarhrammurinn teygði sig lengra og reyndi að sölsa undir sig saltfiskverzlunina líka. Ég get vel skilið afstöðu hv. flm. í þessu máli. Hún er í fullu samræmi við hans sósíalistisku lífsskoðun; hann veit, hvað hann er að fara. En ég ætla að vænta þess, að þessi ríkisrekstrarhugmynd hans verði kveðin niður þegar í fæðingunni.

Hv. þm. N.-Þ. minntist lítið eitt á kolaveiðarnar. Ég vil í því sambandi gera að mínum orðum það, sem einn hv. þm. sagði, að hann vildi geyma kolann til 1944. Hann átti við, að hann vildi ekki hleypa Dönum inn í landhelgina til þess að tæma þá gullnámu, sem vér eigum í kolanum.