23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jóhann Jósefsson:

Ég held, að það sé fátt, sem ég þarf að svara hv. 4. þm. Reykv. Hann dró svo saman seglin í síðustu ræðu sinni, að ég fer ekki að svara aftur þeim vitleysum hjá honum, sem ég var búinn að hrekja áður.

Hv. þm. Ísaf. sló því föstu, að andmæli mín gegn þessu frv. væru andmæli gegn sölu á ísfiski. Þessu mótmæli ég, enda hefi ég áður lýst því yfir, að ég væri því samþykkur, sem formaður sjútvn. sagði við þessa umr., þar sem hann lýsti yfir fylgi sínu við þessa hugmynd, enda höfum við áður borið okkur saman um möguleikana á þessu sviði.

Hv. þm. Ísaf. gerði tilraun til að svara fyrirspurninni um söluskrifstofuna, en svar hans var svo loðið, að það kom fram, sem mig hafði áður grunað, að hann væri í vafa um, hvar þessi skrifstofa ætti að vera. Hann kvaðst upphaflega hafa hugsað sér, að sett væri skrifstofa í Englandi, sem seldi fiskinn. á þessu er auðséð, að hann hefir alls ekki gert sér grein fyrir, hvernig salan á fiskinum fer fram, því að það er algerður óþarfi að setja bar upp skrifstofu, sem sjái um sölu á fiskinum. Það er séð um það af öðrum þar á staðnum, en alls ekki siður, að þeir, sem senda þangað fisk, setji þar upp skrifstofu til að annast söluna.

Það var eitt í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem ég vildi svara. Það var um saltfiskinn. Hann reyndi að sanna, að hagur væri að selja þorskinn nýjan. (SÁÓ: Eins og nú er). Hinsvegar hefi ég haldið því fram, að því aðeins ætti að senda hann nýjan út, að það væri hagur á móti því að verka hann heima. Ég held, að hv. þm. hafi ekki litið á það, hve miklir peningar verða eftir í landinu, ef fiskurinn er verkaður heima. Heldur hv. þm. ekki, að það verði talsvert atvinnutjón, sem fólk hér verður fyrir, ef öllum fiskinum er dembt nýjum á útlenda markaðinn? Þetta er nú raunar fast að því óhugsandi, því verðfallið yrði svo gífurlegt og Englendingar myndu fljótt amast við slíkum innflutningi. Ef þetta væri gert í stórum stíl, ef ríkið reynir að minnka sem mest saltfisksverkunina, þá mundi líka áreiðanlega leiða af því mikið atvinnutjón hér. Það má ekki eingöngu líta á það, hvað mikið væri hægt að fá fyrir fiskinn nýjan; það verður líka að líta á það, hver áhrif það hefir á atvinnulifið hér á landi, ef sala á fiskinum nýjum væri stórkostlega aukin með tilstyrk ríkisins.

Eitt atriði í ræðu hv. flm. vildi ég gjarnan, að yrði betur upplýst. Hann hélt því fram í síðustu ræðu sinni, að ríkið væri hér ekki að taka á sig neina fjárhagslega ábyrgð, þó að það eigi að leggja til skip og láta þau sigla milli landa. En hver á þá að bera fjárhagsáhættuna? Hv. þm. segir, að þetta eigi ekkert að kosta ríkið. Þá skilst mér, að ábyrgðin hljóti að lenda á smábátaútgerðinni, sem á að láta vörurnar í þessi skip. Og óvist er, hvort betra er að geta selt fiskinn hér fyrir peninga út í hönd eða taka á sig þá ábyrgð, sem því fylgir að halda úti gufuskipum með þetta fyrir augum. Það er ekki aðeins, að þetta frv. er frumsmíði; á því eru í mörgum atriðum missmíði. (SE: Og vansmíði). Já, og jafnvel vansmíði. Það er því ekki sjálfsagður hlutur fyrir hv. flm. að taka aths. manna við þetta frv. sem vott þess, að þeir, sem með þessar aths. koma, séu á móti þessu máli á réttum grundvelli. Ég álít einmitt, að það eigi að taka útflutning nýs fiskjar upp á skynsamlegum grundvelli.

Hv. þm. Ísaf. var með skæting til mín og talaði um það, að sig furðaði á þessari afstöðu minni, þar sem ég væri frá því kjördæmi, sem ég er frá, — illu heilli, bætti hann við. Hvort sem það er illu heilli eða ekki, þá á hann eftir að sýna. hver heillaþúfa hann er sínu kjördæmi en ég efast um, að hann hafi þar meiri áhrif til atvinnubóta en ég hefi haft í vetur og að undanförnu í mínu kjördæmi. Til þess að þeir peningar kæmu fyrir fiskinn, sem komið hafa í vetur í Vestmannaeyjum, hefir þurft forstöðu og umsjá. Ég hefi haft þar meiri íhlutun en hv. þm. veit, og mér liggur í léttu rúmi, þó að sagt sé, að ég hafi þar verið í makki við útlendinga. Ég hefi verið þar milligöngumaður, og ég veit fyrir víst, að þeir, sem hafa orðið aðnjótandi þeirrar verzlunar, leggja mér það ekki til lasts, þó að hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv. geri það í fávizku sinni.

Hv. þm. minntist á matarlyktina hjá stjórninni í sambandi við þetta mál. Sú matarlykt virðist nú hafa náð til hv. þm. Ísaf., því að það vita allir, að jafnaðarmenn á þingi eru bitlingamenn núverandi ríkisstjórnar. En ég öfunda þá ekkert af þeim fríðindum, sem þeir fá þar. Hinsvegar er leitt að sjá, að menn skuli vera settir í stöður fyrir pólitískt fylgi, en aðrir hæfari menn settir hjá fyrir það, að þeir eru ekki fylgifiskar hæstv. stj. Ég öfunda samt ekki þessa menn. Það er nær að aumka þá, sem sjá sér ekki annað ráð betra til framdráttar en að gína yfir soðpottum stjórnarinnar. Manndómur þeirra væri að meiri, ef þeir gætu staðið á eigin fótum, en það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður, svo það má nokkuð til vorkunnar virða mönnum þessum, að þeir hafa gefizt upp við að hjargast á eigin spýtur.