17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

145. mál, einkasala á síld

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun ekki við þessa umr. segja margt um þetta frv.

Hv. frsm. drap á till., sem samþ. var á fundi sjómanna og útgerðarmanna á Ísafirði. Virtist mér þar kenna nokkurs misskilnings hjá honum. Ef hann lítur svo á, að með þessari till. hafi fundarmenn kveðið upp dóm um starfsemi Síldareinkasölunnar og telji hana eiga sök á því, að síldarútvegurinn er nú í því öngþveiti, að vafi getur leikið á, hvort skipaeigendur treysta sér að gera skipin út á síldveiðar áfram, — þá er það misskilningur. Ég var staddur á þessum fundi. Þar var mikið rætt um Síldareinkasöluna og henni fundið margt til foráttu, sumt eflaust með réttu. En ég man ekki til þess, að neinn minntist á, að heppilegt mundi vera að leggja hana niður, og enginn till. kom fram í þá átt. Aftur komu fram kröfur um margvíslegar umbætur á fyrirkomulaginu.

Ástæðnanna til þess, að umrædd till. kom fram, er ekki að leita í rekstri Síldareinkasölunnar. Útlitið með verð á bræðslusíld kemur þar einkum til greina. Eins og það er nú, er ólíklegt, að bátar af þeirri stærð, sem notuð er á Ísafirði, verði gerðir út til þess að afla aðallega í bræðslu. Þess vegna kom fram krafa um það á fundinum, að maður væri sendur utan til þess að leitast fyrir um, hvort hægt væri að selja fyrirfram svo mikla síld, að fært þætti að veita bátunum hærri söltunarleyfi.

Nú er hugsanlegt, að síldareinkasalan geri samninga um síldarsölu, en svo treysti bátaeigendur sér ekki að gera út þegar til kemur. Till., sem hv. þm. Vestm. talaði um, stefnir að því meðal annars að undir slíkum kringumstæðum fái Síldareinkasalan heimild til þess að taka skip, sem liggja annars ónotuð, og afla með þeim þeirrar síldar, sem hún þarf til að fullnægja samningum sínum og sölumöguleikum.

Því verður ekki neitað, eins og horfurnar eru nú, togararnir bundnir við hafnargarðinn og eins tvísýnt um síldarútveginn og sýnt hefir verið fram á, að menn verða að vera við því búnir hvenær sem er að gripa til sérstakra ráðstafana. Mér er sagt, að nú muni þess ekki langt að bíða, að togararnir fari á veiðar. En setjum nú svo, að útgerðarmennirnir hefðu heldur kosið að láta þá vera bundna áfram, að þeir hefðu ákveðið að sleppa alveg þessari vertíð. Hefði þá Alþ. getað látið slíkt afskiptalaust? Að mínum dómi alls ekki. En nú getur einmitt verið um hið sama að ræða að því er snertir nokkurn hluta síldarútgerðarinnar, ef útlitið með verð á bræðslusíld batnar ekki og ekki tekst að rýmka saltsíldarmarkaðinn nægilega.

Ég get í þessu sambandi minnst á, hvað Síldareinkasölunni er mest fundið til foráttu þarna vestur frá. Það er þá fyrst það, hve andvirði síldarinnar kemur seint og í smáum skömmtum. Ennþá eiga útgerðarmenn og sjómenn inni hjá einkasölunni, það sem fæst fram yfir 7 kr. á tunnu fyrir síldina árið sem leið. Verður það sennilega 1/4 til 1/3 verðs. Þetta er mönnum mjög bagalegt, og er því lögð mikil áherzla á það vestra, að þessu sé sem fyrst kippt í lag. Einkasalan verður að fá til umráða svo mikið rekstrarfé, að hún geti strax í vertíðarlok greitt fyrir síldina, það sem hún telur eftir atvikum þorandi að borga út.

Frv. þetta gerir ráð fyrir mikilli breyt. á stjórn Síldareinkasölunnar. Eftir því eiga útgerðarmenn að fá full umráð yfir henni. Af 24 manna fulltrúaráði eiga útgerðarmenn að kjósa 13, skipstjórar 3 og 59 sjómenn aðeins 8. Þó að fulltrúar skipstjóranna og hásetanna fylgdust að málum, sem þeir mjög oft ekki gera, gætu þeir samt engu komið fram gegn vilja útgerðarmanna.

Það er enginn vafi á því, að sá einn er tilgangurinn með þessu frv., að gera sjómenn áhrifalausa um stjórn Síldareinkasölunnar, þar sem þeir nú hafa rétt til íhlutunar, og leggja valdið alveg í hendur útgerðarmanna. Fyrirkomulagsbreytingar á starfsemi Einkasölunnar, sem máli skipta, felast engar í frv. Heldur þetta eitt, að tryggja útgerðarmönnum þar einræði. Enda er talið í grg. þess, að aðalgallar Síldareinkasölunnar stafi af því, að stjórn hennar sé of pólitísk, en það þýðir: ekki einlit íhaldsstjórn.

Nú er stjórn Síldareinkasölunnar mynduð þannig, að Alþ. kýs 3 menn, verkalýðssamböndin 1 og útgerðarmenn 1. Að breyta þessu í það horf, sem frv. gefir ráð fyrir, tel ég mjög til hins verra. Hinsvegar væri mér ánægja til taka til athugunar breytingar á fyrirkomulagi Einkasölunnar.

Fyrir þá, sem vilja hallast að því ráði að láta útgerðarmenn einráða um stjórn Síldareinkasölunnar, væri ekki úr vegi að rifja upp, hvernig gekk meðan þeir höfðu síldarsöluna algerlega í sínum höndum. Maður þarf ekki langt að leita til að rekast á allt öngþveitið og óreiðuna, sem síldarútvegurinn þá var kominn í. Fáein ár nægja. Útgerðarmenn töpuðu, sjómennirnir og verkafólkið töpuðu, fengu oft ekki kaup sitt útborgað árum saman. Að vísu á síldarsalan eftir þessu frv. að vera miklu skipulagsbundnari heldur en hún var áður en Einkasalan var stofnuð, og er því ekki óhugsandi, að ástandið yrði eitthvað betra, þó frv. væri samþ., heldur en þá var. En hlutur sjómanna og verkafólks er þar engu betur tryggður en áður var.

Að svipta sjómenn og verkafólk áhrifum á stjórn Einkasölunnar, álít ég spor í algerlega ranga átt. Þó mun ég ekki greiða atkvæði á móti því, að frumvarpið fari til nefndar, í því trausti, að nefndin, sem fær það til meðferðar, athugi í sambandi við það ýmislegt annað, er að Einkasölunni lýtur og þörf er á að lagfæra.