30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

116. mál, heimild til að veita Jóni Þorleifi Jósefssyni vélstjórnarskírteini

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Efni þessa frv. er, eins og fyrirsögn þess bendir til, að heimila atvmrh. að veita Jóni Þorleifi Jósefssyni rétt til að vera vélstjóri á íslenzkum skipum. Svo er málið vaxið, að maður þessi hefir stundað járnsmíðar og vélsmíðar að nokkru leyti hér á landi, en mest þó í Noregi og hefir að sögn lokið prófi þar. Hann hefir því ekki rétt til vélstjórnar hér, þótt hann hafi það í Noregi. Hann hefir nú dvalið hér nokkur ár samfleytt og gegnt vélstjórastörfum lengst af þeim tíma. Þar sem telja má, að þessi maður hafi fengið svo mikla verklega þekkingu og æfingu, að hann sé fullfær um að standa vel í þessari stöðu sinni, mælir allt með því, að honum sé veitt trygging fyrir framtíðaratvinnu hér á landi. Hann hefir alltaf átt á hættu að missa atvinnuna við að flytjast milli skipa, því að undanþágur gilda ekki nema fyrir tiltekið skip. Allshn. hefir athugað málið rækilega, og þó að hún telji slíka heimild alls ekki veitandi nema gildar ástæður mæli með og sannað sé, að maðurinn sé a. m. k. eins vel fær og ef hann hefði lokið prófi við vélstjóraskólann í Reykjavík, þá telur hún, að þessi maður hafi uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði, svo að rétt sé að veita atvmrh. leyfi til að gefa honum skírteini til vélstjórnar á íslenzkum skipum. Ég býst ekki við, að málið mæti neinum ágreiningi í hv. d., og sé því ekki ástæðu til að ræða það frekar.