14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (246)

111. mál, opinber vinna

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. 2. þm. Eyf. fór alveg í gegnum sjálfan sig í ræðu sinni, þegar hann fór að tala um vegavinnu bændanna. Hann byrjaði á því að andmæla frv. fyrir það, að þar er mælt svo fyrir, að við opinbera vinnu Skuli gilda samþykktur kauptaxti verkamanna, en svo þegar hann fór að tala um vegavinnu í sveitum, þá vildi hann ekki annað heyra en að verkamennirnir sjálfir réðu kaupinu, eins og þeir yrðu á móti kauptaxta verkalýðsfélaganna. Ef þm. kæmi fram með brtt. um það, að verkalnenn sjálfir ættu að ákveða sitt kaup t. d. í vegavinnu, sem sveitarstjórnin síðar greiddi, mundi ég óðara fallast á þá till., því að það væri allt annað fyrirkomulag heldur en ef sveitarstjórnirnar ákveða kaupið. Verkamenn við vegavinnu, bæði bændur og aðrir, vilja hafa sama kaup eins og við aðra vinnu. Þó að ef til vill megi finna dæmi einhverstaðar á landinu, þar sem einhverjir séu svo fórnfúsir og vel staddir efnalega, að þeir kæra sig ekki um að taka fullkomin laun fyrir vinnu sína, þá er vitanlega ekki hægt að nota slík dæmi sem form fyrir vegavinnu almennt.

Það liggur í augum uppi, að allir þeir verkamenn, sem vinna að vegagerð, líklega hátt á annað þúsund síðastl, sumar, hafa ekki sótt þá vinnu af eintómri fornfýsi, enda sýnir kostnaður við vegagerðir 1930, að svo hefir ekki verið.

Tilgangurinn með frv. þessu er sá, að koma í veg fyrir, að hið opinbera sé notað sem verkfæri í höndum atvinnurekenda til að halda niðri eða lækka kaup verkafólksins.

Margir harðsvíraðir atvinnurekendur reyna af fremsta megni að hafa áhrif á stjórn atvinnumálanna til þess að halda niðri kaupi, ekki í þeim tilgangi að spara fé ríkissjóðs, heldur til þess, að þeir geti sjálfir grætt á því. Slíkt athæfi er svívirðilegt að mínum dómi. Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Eyf. talaði um vinnustöðvun norður í Eyjafirði, sem verkamannafélag Akureyrar stóð fyrir, þá verð ég að viðurkenna, að ég er því máli ekki nægilega kunnugur til þess að ræða um það her, en ég býst við, að hér syðra hefði verið farið öðruvísi að. (LH: Hvernig var með garnaflækjuna?) Ég geri ráð fyrir að taka það mál rækilega til athugunar á eldhúsdegi og mun þá rekja svo garnirnar úr hv. þm., að þess verði lengi minnzt. (LH: Ætli hv. þm. gangi það ekki illa?). Hv. þm. V.-Húnv. var að spyrja um það, hvaða taxti það væri, sem ætti að gilda. Eins og tekið er fram í 3. og 4. gr. frv., þá á að gilda s5 taxti, sem unnið er samkv. á staðnum eða í næsta þorpi. Ef atvinnurekendur láta vinna eftir kauptaxta verkalýðsfélaganna, þá skoðast hann gildandi samkv. þessu frv., en annars ekki, ef verkamennirnir sjálfir vinna ekki eftir taxta sínum. Ég sé, að þetta frv. ætlar ekki að mæta neinum sérstökum vinsældum hjá Framsóknarflokknum hér á þingi, enda bjóst ég tæplega við því hjá hinum háttsettari innan flokksins. En ég efast stórlega um, að þessi framkoma þeirra sé eins vinsæl heima í sveitunum eins og hún virðist sjálfsögð hér meðal ofríkismanna flokksins.