08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

Afgreiðsla þingmála

Einar Jónsson:

Ég minnist þess nú, að fyrir nokkrum dögum var gert mikið veður út af því, að mig hafði vantað í atkvgr. í einu máli, skattamálinu, og hlaut ég fyrir það mikið ánæli, bæði hjá einstökum hv. þdm., og jafnvel í blöðum, og var það m. a. fundið til, að atkvgr. hefði orðið óljós fyrir þá sök. Mér finnst nú, að menn ættu að geta látið mig í friði framvegis, úr því að svo er nú komið vinnubrögðum deildarinnar, að ekki færri en tíu þm. vantar til atkvgr. Þó að atkvgr. sé óljós að þessu sinni, þá er þar öðrum um að kenna en mér, og ég mun því vísa á bug öllum ásökunum þar að lútandi, sem til mín er beint; ég mun ekki víkja af fundi, en vil einungis, að gefnu tilefni, skjóta því til hv. þdm., að þeim hæfir sízt að bregða mér um þær ávirðingar, sem þeir sjálfir eru svo þunglega haldnir af sem raun ber nú vitni um.