26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (461)

43. mál, lækkun vaxta

Flm. (Magnús Torfason):

Það á nú ekki að þurfa að hafa langan formála fyrir þessari till. Hún má heita að vera orðin nokkurskonar forngripur hér í þessari háttv. deild. En slíkum till. sem þessi er, hefir hvað eftir annað verið hreint og beint traðkað. Ýmist hefir það verið gert með því að senda þær til fjhn., eða þá beinlínis með atkvgr. Á þinginu í fyrra var samþ. till. líks efnis, en þó nokkru víðtækari, því að þessi till. miðar aðeins við Landsbanka Íslands, og það af þeirri ástæðu, að sá banki hlýtur að geta ráðið og ráða forvöxtum hér á landi. Aðrar útlánsstofnanir verða að fara eftir forvöxtum Landsbankans, þar á meðal Útvegsbankinn og einmitt sérstaklega hann, því að ekki alllítill hluti þess fjár, er hann starfar með, er fenginn hjá Landsbankanum með venjulegum forvaxtakjörum.

Það hefir nú ekki borið á því til þessa, að slíkar till. sem þessi bæru árangur. Ég vil þó eigi vera svo ósanngjarn að telja, að ekki hafi verið þó nokkur ástæða til þess að svo hefir farið. Það muna eflaust allir eftir bankahruninu í fyrra. Á meðan það stóð yfir, varð eigi vitað, hvaða áhrif það gæti haft á hag Landsbankans. En eftir því sem ég veit frekast nú, þá hefir Landsbankinn ekki beðið neitt tjón né orðið fyrir skakkaföllum af hruni Íslandsbanka. Þvert á móti; ef nokkuð er, þá hefir Landsbankinn fengið viðskipti sín við þá bankastofnun betur tryggð. (SE: Það hefir þá borgað sig að Íslandsbanki var stöðvaður!). Ég ætla ekkert að fara út í það nú. ) Það hafa þegar nógu mörg ónytjaorð fallið um það.

En þegar kom fram á síðastl. haust og sýnt var, að hagur Landsbankans beið ekki hnekki af bankastöðvuninni, þá hefði ég getað búizt við, að till. síðasta þings yrði tekin til greina, ekki sízt með það fyrir augum, að forvextir höfðu lækkað mjög erlendis. En þegar bankinn á sínum tíma hækkaði forvextina um 1% þá var ástæðan talin sú, að forvextir hefðu hækkað erlendis. Nú stóð sú hækkun eigi lengi þar, enda eru forvextir nú erlendis orðnir eins lágir og þeir voru fyrir heimsófriðinn mikla. Landsbankinn lækkaði nú að vísu forvexti sína um ½%. Að öðru leyti hefir hann ekki tekið tillit til þeirra þál., sem legið hafa fyrir Alþingi um þetta mál. Heldur ekki hefir hann tekið tillit til hinnar miklu forvaxta lækkunar erlendis. Það virðist því vera svo, að þegar forvextir hækka erlendis, telji bankinn sig knúinn til að hækka sína forvexti líka, en taki hinsvegar ekkert tillit til þess, þótt forvextir lækki þar. Maður gæti þó haldið, að ef samband Landsbankans við erlenda banka væri svo, að ef hann þyrfti að hækka, þegar þeir hækka, þá ætti hann líka að fylgjast með lækkun. En það er nú öðru nær en svo sé.

Það, sem sérstaklega hefir gerzt síðan í fyrra, er það, að nú er kreppa skollin yfir allan heim og hefir líka gert vart við sig hér. Að því er bót við því böli snertir, þá er litið svo á alstaðar annarsstaðar, að það sé skylda þeirra, er með fjármálin fara, að draga sem mest úr kreppunni. Er það gert með ýmsum hjálparráðstöfunum, og þó fyrst og fremst með því að lækka útgerðarkostnað atvinnufyrirtækja. Eitt hið fyrsta er að lækka forvextina, og það hefir verið gert. En ríkin hafa ekki látið sér nægja að lækka vexti af sínum eigin lánum, heldur hafa þau og kúgað aðra banka og sparisjóði til að lækka bæði inn- og útlánsvexti. Þetta er líka sú eina beina ráðstöfun, sem fjármálastjórn hvers lands hefir til þess að draga úr kreppunni. Enda er það hvarvetna skoðað sem hjálp við atvinnuvegina. Svo að við snúum okkur nú að okkar eigin landi, þá má segja, að dýrtíð sé meiri hér en þekkist nokkursstaðar annarsstaðar. Ástæður fyrir því er of langt mál upp að telja, enda eigi þörf, því að öllum eru þær ljósar. Í blöðum landsins sumum hefir nú nýlega verið haft hátt um það, að minnka þyrfti dýrtíðina, einkum hér í Reykjavík. Ég hefi þó eigi orðið þess var enn, að drög til neinna slíkra ráðstafana hafi verið lögð fyrir þingið. En ég veit, að ef lækkun vaxta næði fram að ganga, þá kæmi hún í mesta þörf, þeir, sem verst eru stæðir, fengju mesta linkindina.

Eins og menn vita, eru vextir afardýrir hér. Við vitum, að bankarnir hafa tapað miklu, orðið að afskrifa mikið og að það eru skilamennirnir, sem verða að borga töpin. En hér virðist það vera pólitísk stefna bankanna að halda ávallt áfram að níðast á skilamönnunum. Það eru þeir, sem enga linkind eiga að fá, mennirnir, sem bera uppi atvinnuvegina. Maður gæti freistazt til að halda, að þetta væri lögmál, eða þá trúaratriði. (MJ: Er þetta ekki svo víðar?). Jú, ef til vill, en þar hafa vextirnir líka verið lækkaðir.

Það er rétt að drepa á eitt atriði, án þess þó að ég ætli að ræða það nánar, sem gerir að verkum, að sérstök ástæða er til að hlífa skilamönnunum hér. Það er það, að bankarnir hækkuðu skuldir manna um 70% án þess að lækka vextina hið minnsta. — Þetta var gert með hækkun krónunnar, sem er hin barnalegasta ráðstöfun, sem gerð hefir verið í nokkru landi, svo að eigi séu sterkari orð viðhöfð. Hin fyrsta ástæða, sem fyrir hendi þarf að vera til þess að bankarnir geti lækkað vextina, er sú, að þeir séu þess megnugir. En það voru þeir ekki. Nú eru meira en 5 ár síðan, en engan hefi ég heyrt halda því fram, að krónuhækkunin hafi verið af svo miklu óviti gerð, að þau bankasár séu ekki orðin heil að mestu. Verður því að ganga út frá því, að þeim sé það fært að lækka vexti sína, eftir öll góðærin.

Auk þessa, er ég nú hefi talið, er enn sú almenna ástæða, að Landsbankinn hefir þegið frá ríkinu svo margskonar aukin hlunnindi og peningafúlgur, að hann ætti að finna það skyldu sína að veita atvinnuvegunum nokkra linkind, þegar að kreppir. — Yfirleitt er það hart lögmál, ef vextir þjóðbankans hér þurfa að vera ekki einungis jafnháir, heldur miklu hærri en hjá prívat okurbönkum í öðrum löndum, þrátt fyrir þann styrk, er hann nýtur frá ríkinu.

Ég þykist nú hafa bent á ýms fullgild rök fyrir því, að þessi till. sé eigi fram komin að raunalausu. Skal ég því ekki segja fleira að sinni. En geta skal ég þess, að till. er m. a. fram komin vegna samþykkta fjögurra þingmálafunda, er haldnir voru í Árnessýslu. — Mun ég svo heyra svör hæstv. ráðh.