16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (528)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Við þessa umr. málsins liggja ekki fyrir nema tvær brtt., svo að vitað sé um. Önnur þeirra er frá meiri hl. fjhn., og er hún nánast aðeins orðabreyt., þar sem nánar er fram tekið það, sem lagt er til í frv. um verðlag búpenings. Það er lagt til, að það sé lögákveðið, að búpening skuli meta til eignar eftir síðustu verðlagsskýrslu hvers hrepps. Um þetta hafa ekki gilt neinar fastar reglur, og hefir það því verið nokkuð á reiki og í óvissu.

Við brtt. frá hv. þm. Dal. munu hv. þdm. kannast, því að á síðasta þingi bar hann fram samskonar till., sem þá var felld. Það, sem farið er fram á í þessari till., er það, að áður en skatturinn er lagður á, megi draga frá tekjum aukaútsvör og tekju- og eignarskatt. Þetta er að vísu eins og í gildandi lögum. En þegar lögin voru sett upphaflega, 1921, var svo ákveðið, að ekki mætti draga þetta frá skattskyldum tekjum áður en skattur væri á þær lagður, en því var breytt 1923.

Það, sem lagt er til í frv., er bil beggja, sem sé að draga megi frá helming aukaútsvara og tekju- og eignarskatts. Mþn. í tolla- og skattamálum lagði til að hækka persónufrádráttinn. Af því leiddi sýnilega rýrnun á skattinum, ef á það yrði fallizt. Til þess að vega upp á móti þeirri rýrnun var lagt til, að skatt og útsvar skyldi ekki draga frá, en það breyttist í meðferð þingsins í fyrra í það horf, sem það er nú í frv.

Ég vil benda á það, að ef till. hv. þm. Dal. verður samþ., þá er það sama og að rýra enn þennan tekjustofn að talsverðu leyti. Það, sem mælir á móti þessari till., er ekkert nema þetta, að hún rýrir tekjur ríkissjóðs af þessum tekjustofni. Ég vil benda á það, þeim mönnum, sem er það mikið áhugamál að fá þessa till. samþ., að óvíst er, að að því yrði nokkur skattléttir, því þá er sú leið til að jafna það síðar í meðferð málsins með því að hækka skattstigann. Ég get sagt það, að ég geri ekki mikinn ágreining um þetta atriði, hvor leiðin er farin, eða þó tekjustofninn yrði rýrður um það, sem af þessari brtt. leiðir, ef það þykir fært.