18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (538)

152. mál, sala og afnotagjald viðtækja

Jón Sigurðsson:

Ég skal vera stuttorður. — Ég vil aðeins benda á það, að síðari hluti þáltill. á þskj. 152 er mjög óheppilegur að mínum dómi. Þar er gert ráð fyrir því, að afnotagjald af viðtækjum fari lækkandi eftir fjölda notenda í hverju sveitar- eða bæjarfélagi. Nú er það öllum ljóst, að kaup á viðtækjum fara að miklu leyti eftir fjárhagsgetu manna. Árleg útgjöld við útvarpsnotkunina eru talsvert há, um 100–150 kr., og talsvert meir, ef ekki er kostur á rafmagni, auk stofnkostnaðar, er nemur nokkrum hundr. króna. Verður því að líta á málið frá fjárhagslegu sjónarmiði. Með síðari lið þáltill. er í reyndinni verið að verðlauna þær sveitir, sem vel eru staddar fjárhagslega með því að ákveða, að þeim sveitum, er þegar hafa fengið sér mörg tæki, skuli eftirleiðis seld tækin fyrir miklu lægra verð en verið hefir, en aftur á móti verða þær sveitir, sem ekki hafa treyst sér til að kaupa tæki, t. d. vegna örðugs fjárhags, að sæta miklu verri kjörum, og því verri sem fátæktin er meiri. þetta finnst mér óhæfileg leið. Það verður að finna aðra og betri leið til þess að lækka afnotagjaldið en þessa vitleysu.

Ég vildi svo óska, að sú n., sem fær málið til meðferðar, vildi athuga þetta, ef frv. á að ganga áfram.