26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (559)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Ég vil einungis vísa frá mér aðdróttunum hv. 2. landsk. um það, að þessu máli sé nú á annan veg tekið en undanfarið, vegna þess að kosningar séu í nánd. Ég get ekki séð, að þetta mál standi í nokkru sambandi við kosningarnar, enda var mér það alls ekki í hug, þegar ég stakk upp á, að því yrði vísað til nefndar. Það, sem fyrir mér vakti, var það, að ég var ekki viss um, nema það þyrfti að gera einhverjar breytingar á dýrtíðaruppbótinni, með sérstöku tilliti til þess, að einstakir flokkar embættismanna þættust harðara leiknir en aðrir. Á ég hér einkum við prestastéttina, sem er sáróánægð með launakjör sín og hafði gert sér vonir um launabætur, samkv. till. kirkjumálanefndar. Nú munu þær vonir hafa brugðizt, því að hæstv. stj. mun ekki ætla að leggja fram frv. þar að lútandi, a. m. k. ekki á þessu þingi. Ef nú svo kynni að reynast við nánari athugun, að ekki yrði hjá því komizt að bæta að einhverju leyti launakjör þessarar stéttar, þá er opin leið til þess að hrinda því áleiðis í sambandi við þetta mál. Þess vegna álít ég alveg sjálfsagt að vísa málinu til nefndar, til frekari athugunar þessu atriði og öðrum, er fram kunna að koma.

Annars get ég ekki verið sammála hv. 3. landsk. um það, að ríkissjóður sé svo illa staddur, að honum sé um megn að greiða þetta. Ég á bágt með að skilja þennan ákafa barlóm um afkomu ríkissjóðsins, þar sem við erum nýbúnir að heyra það af vörum hæstv. fjmrh., að tekjur ríkissjóðsins hafi farið 5 millj. kr. fram úr áætlun síðastl. ár, enda þótt þeir peningar séu nú ekki handbærir, þar sem þeim hefir verið eytt umfram heimild fjárlaganna. Að vísu er útlitið ekki sem glæsilegast í svipinn, og lítil von um að tekjur ríkissjóðs fari þetta ár fram úr áætlun, svo að nokkru nemi. En hitt er jafn fráleitt, að útlitið sé svo svart um tekjuöflun ríkissjóðs þetta ár, að ástæða sé til þess í hverju máli að mála fjandann á vegginn, og útmála allt sem svartast.