26.02.1931
Efri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (560)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Mér þótti sannast á hv. 2. landsk. gamla máltækið, að „margur heldur mann af sér“. Hann var að drótta því að okkur, að við værum alltaf að „filma“ fyrir kjósendum í hverju máli. Mér fyndist nú, að betur sæti á öðrum en hv. 2. landsk. að brýna aðra þm. með hvílíku, og sízt okkur bændur. Ég ætla, að hv. þm. eigi of mikinn þátt í þvílíkri iðju, til þess að tala digurbarkalega og með vandlætingarhræsni um þá hluti. Hv. þm. sagði, að þm. hefðu ekki hug til þess að koma með breyting launalaganna, vegna þess að þá yrði að hækka föstu launin. En þess ber þá að geta, að engin till. hefir komið fram um það efni hér í þinginu, og þess vegna er það alveg óreynt mál, hversu þm. mundu snúast við því, ef til kæmi. En annars verð ég að segja það, að mér virðist þörfin ekki svo mjög aðkallandi eins og sakir standa, en hinsvegar gæti þetta mál komið frekar til athugunar, ef till. kæmi fram um endurskoðun launalaganna frá 1919. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um það að svo stöddu.

Þá var hv. þm. að tala um, að ég sæi ekki nema þessa einu leið, að lækka kaupgjaldið, til þess að forða atvinnuvegunum frá hruni. Þetta er rangfærsla, sem varla er eltandi ólar við. Hinsvegar hefi ég verið því mjög fylgjandi, að atvinnuvegirnir væru studdir svo, að þeir gæfu betri arð, og á síðari árum hefir pólitík okkar snúizt um það einkum. En ég get ekki séð, að þetta gerist í einu augnabliki, og enda þótt vænta megi mikils árangurs af umbótum síðari ára, þá getur það tekið nokkur ár, áður en atvinnugreinarnar eru komnar í fullkomnara horf. En eins og nú standa sakir, sé ég þess engar líkur, að t. d. landbúnaðurinn þoli svo hátt kaupgjald, sem nú er. Hv. þm. var að dylgja um, að verð ísl. landbúnaðarafurða væri svo hátt hér innanlands, að ódýrara væri að fá samkynja vörur frá útlöndum. Þetta hygg ég ekki, að eigi við nein rök að styðjast almennt. Að minnsta kosti mun ekki torvelt norðanlands að fá landbúnaðarvörur með sama verði og fyrir þær fæst ytra. Við viljum sannarlega ekki síður selja þær Íslendingum.

En hvernig er það nú um kaupgjaldið? Því er einmitt þannig farið, að landbúnaðinum býðst fólk frá nágrannalöndunum gegn mun lægra kaupi en hér tíðkast.

Hvað á svo að gera? Er það vel ráðið frá þjóðarheildarinnar sjónarmiði að flytja inn verkafólk frá útlöndum á sama tíma og horfur eru á atvinnuleysi í landinu?

Mér skilst, að það sé bezt fyrir alla aðilja, að verkafólkið lækki kröfur sínar, fremur en grípa verði til þess óyndisúrræðis að fá verkafólk frá útlöndum.

Hv. þm. Snæf. fór ekki rétt með það, sem hann hafði eftir mér. Ég sagði ekki, að ríkissjóði væri um megn að greiða dýrtíðaruppbótina, heldur það, að fé ríkissjóðs væri illa ráðstafað vegna yfirvofandi kreppu með því að greiða embættismönnum umfram það, sem lög standa til, samtímis því, sem stöðva verður opinberar framkvæmdir, enda verða kjör embættismanna betri með þessu móti en þau hafa verið. Það er að vísu rétt, að tekjurnar hafa farið fram úr áætlun undanfarin ár, en ég býst ekki við, að við lifum lengi á þeim. Það eru tekjur næsta árs, sem mest er undir komið, og útlitið er ekki glæsilegt þar.