12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (575)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Hv. 1. landsk. fór kringum fyrirspurn mína eins og köttur í kringum heitan graut. Hann vildi réttlæta till. með því, að almennt kaupgjald væri hærra nú en árið 1928. En kaup embættismanna verður að miða við það, hvað kaupgjald þarf að vera á hverjum tíma.

(JÞ: Við það kaupgjald, sem er greitt). Það er enn ekki fullkomlega séð, hvaða kaupgjald verður greitt á þessu ári, svo að hv. þm. hlýtur að miða samanburð sinn við það kaupgjald, sem hefir verið greitt.

Það eru, held ég, ekki einungis bændur, sem eiga erfitt með að greiða hið háa kaup. Mér heyrist nóg sultarhljóð frá útgerðarmönnum líka. Og ef menn viðurkenna, að almennt kaupgjald þurfi að lækka, finnst mér bein mótsögn að segja, að laun opinberra starfsmanna eigi að hækka. Löggjafarvaldið var komið inn á þá braut, sem ekki var ósanngjörn, að miða launagreiðslur til embættismanna að nokkru leyti við dýrtíðina. Og frá því sjónarmiði hækka launin raunverulega, þegar dýrtíðin minnkar, ef þau eru bundin við sömu krónutölu.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að þeir, sem vinna hjá einstaklingsfyrirtækjum, fengju yfirleitt vinnu sína betur borgaða heldur en starfsmenn hins opinbera. Ég held, að þetta efni sé lítt rannsakað, og ég tel vafasamt, hvort ekki er eitthvað athugavert við samanburð hv. þm. Að því leyti, sem ég þekki til hér, er t. d. yfirleitt lengri vinnutími hjá einstaklingsfyrirtækjum heldur en hinu opinbera. Ég held, að vinnutími á opinberum skrifstofum sé mjög stuttur, jafnvel svo, að ekki er lagt hald á nema helminginn af starfskröftum starfsfólksins, enda er vitanlegt, að starfsmenn hins opinbera hér hafa oft mikla aukaatvinnu.

Hv. 1. landsk. afsakaði sig með því, er hann vildi ekki svara fyrirspurn minni, að hann væri ekki atvinnurekandi. Það er nú gallinn, að of margir hv. þm. þessarar deildar taka ekki beinan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar og finna því verr en skyldi, hvar skórinn kreppir að.

Hv. 1. landsk. vildi, að ég beindi fyrirspurn minni til hæstv. atvmrh. Gaf hann í skyn, að skoðanir mundu skiptar um það innan Framsóknarflokksins, hvort kaupgjald þarf að lækka. Ég skal ekkert um það fullyrða, en ég tel það enga sönnun fyrir, að svo sé, þó að hæstv. atvmrh. gripi í taumana, þegar útlit var fyrir, að samgöngurnar með ströndum fram ætluðu að stöðvast. Og þó að ríkinu væri þá bundin kvöð í svipinn, var það laust allra mála, þegar hinn umsamdi tími var útrunninn. En hvaða skoðun hæstv. atvmrh. hefir í þessu máli, sem hér er til umr., kemur eflaust í ljós, þegar það kemur til hans deildar.

Mér virðist hv. meiri hl. fjhn. ekki hafa enn komið fram með neitt, sem sýnir, að sérstök ástæða sé til að samþ. þessa till. Á slíku kreppuári, sem nú stendur yfir, er hér vitanlega um talsverða upphæð að ræða, sem mér finnst lítil ástæða til að leggja út, eins og nú standa sakir.