14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (583)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Það hjálpar hæstv. forsrh. ekkert, þó að hann rökræði við sjálfan sig og komist að þeirri niðurstöðu í þeim hugsanagangi sínum, að ég hafi ekki getað átt við annað en togaradeiluna. Sannleikurinn er sá, að ég hefi ekkert minnzt á hana.

Hæstv. ráðh. þykir kaupdeilan við Eimskipafélagið lítilfjörleg. En fyrst honum þykir það, hvers vegna er hann þá að stökkva hér upp á nef sér og koma með þennan reiðilestur að ástæðulausu? Ég hefi mína skoðun á því, hvernig kauphækkunin komst af stað. Ég lít svo á, að í þessum samningum við Eimskipafélagsstjórnina og togaraeigendur hafi verið mismunandi aðiljar öðrum megin, en sami aðilinn hinum megin, nefnilega Sjómannafélag Reykjavíkur. Og það kann að halda á sínum málum. Það tók fyrst upp deiluna við Eimskipafélagið og fékk þar máli sínu framgengt með því, að ríkissjóður borgaði þá upphæð, sem Eimskipafélagið vildi ekki borga. Ég veit ekki, hvaða áhrif þessi sigur hefir haft á þá stærri deilu, deiluna við útgerðarmenn, en eftir öllum líkum má gera ráð fyrir, að í síðari deilunni hafi Sjómannafélaginu þótt stuðningur í því, að hafa unnið sigur í fyrri deilunni. Í báðum deilunum var farið fram á hlutfallslega sömu hækkun, og í togaradeilunni fékkst hún með nálega sömu hlutfallstölu og í deilunni við Eimskipafélagið. Ég veit ekki, hvernig það gekk til, en fyrsta kauphækkunin var svona.

Ég vil taka það fram, að ég hefi hvorki nú né í fyrri ummælum mínum um þetta mál kveðið upp neinn dóm um það, hvort kauphækkun þessi hafi verið réttmæt eða ekki. Ég hefi aðeins tekið fram þær staðreyndir, sem voru þess valdandi, að þessi kauphækkun komst á. Það var búið að koma fram í hv. d., sem ég hélt að hæstv. forsrh. mundi vilja bera fram sem ástæðu fyrir því, að hann skarst í Eimskipafélagsdeiluna. Hann hafði því ekki ástæðu til þess út frá því sjónarmiði, að það vantaði upplýsingar í málinu, að koma með þessa ádeilu hér.

Ég læt nú fyrir mitt leyti útrætt um þetta mál. En ég vildi óska, að næst, þegar hæstv. forsrh. kemur að tala við okkur í þessari hv. d., þá hefði hann áreiðanlegri grundvöll fyrir framkomu sinni en það, að segjast hafa heyrt, að þetta og þetta hafi komið fram í umr., sem aldrei hefir verið minnzt á.